Skip to main content

Menntun allra - Viðbótardiplóma

Menntun allra - Viðbótardiplóma

Menntavísindasvið

Menntun allra

Viðbótardiplóma – 60 einingar

Námið er fyrst og fremst miðað að þeim sem vilja auka þekkingu sína á sviði menntunar fyrir alla, gerð er krafa um tveggja ára starfsreynslu úr stoðþjónustu í leik- eða grunnskóla. Sjónum er einkum beint að því hvernig búa má börn og ungmenni með ólíkar forsendur til náms, aðstæður til að þroskast og læra í samfélagi við aðra. 

Skipulag náms

X

Menntun allra í fjölmenningarsamfélagi: Kenningar og rannsóknir (MAL104F)

Hugmyndir um menntun allra, fjölmenningarmenntun og sérkennslu eru mikilvægir þættir í skilvirkum skólum með fjölbreyttum nemendahópum.

Megintilgangur námskeiðsins er að gefa nemendum kost á að dýpka þekkingu sína og skilning á rannsóknum og kenningum á sviði menntunar allra og fjölmenningarfræða á Íslandi og í öðrum löndum.

Fjallað verður um rannsóknir og kenningar er varða jaðarsetningu barna og ungmenna í skólakerfinu út frá hugmyndum um jafnræði, jafnrétti og mannréttindi. Ennfremur verður fjallað um menntun allra og fjölmenningarlega menntun í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, stöðu minnihlutahópa og stöðu flóttafólks.

Hugtakið samtvinnun (e. intersectionality) dregur athygli að því að þegar breytur eins og kynþáttur, tungumál, trú, þjóðerni, fötlun, kynhneigð mætast, hafa þær margfeldisáhrif á stöðu nemenda.

X

Kennslufræði og skipulag stoðþjónustu (MAL204F)

Tilgangur námskeiðsins er að undirbúa þátttakendur til að leiða og skipuleggja stoðþjónustu í samstarfi við fagaðila innan og utan skóla. Að þátttakendur séu undirbúinir undir að starfa samkvæmt lögum og reglugerðum er snúa að skólastarfi. Sérstaklega ber að nefna lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) sem leggja þá ábyrgð á starfsfólk skóla að fylgjast með velferð og farsæld barna og fjölskyldna og meta þörf fyrir þjónustu, að bregðast við þörfum barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur og að hafa samráð með það að markmiði að þjónusta sé samfelld í þágu velferðar barna og foreldra.

Í lok námskeiðsins eiga þátttakendur að geta metið, undirbúið og skipulagt stuðning fyrir einstaklinga og hópa og fylgt þeirri framkvæmd eftir á markvissan hátt. Þátttakendur eiga að vera færir um að leiða og skipuleggja samstarf við foreldra, fagaðila innan og utan skóla og aðra sem koma að málefnum barna og ungmenna og þekkja hlutverk tengiliða skv. fyrrgreindum lögum um farsæld.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Nemendur vinna vettvangstengd verkefni. Kennt er í staðlotum, síðdegistímum og á vefnum (Canvas).

X

Málþroski og þróun málnotkunar (KME104F)

Námskeiðinu er ætlað að efla skilning nemenda á þróun málþroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár og á mikilvægum áhrifsþáttum á málþroska þeirra. Megin áhersla námskeiðsins er á að auka færni nemenda við að veita börnum árangursríka málörvun sem undirstöðu undir nám og lestur. Ennfremur eru nemendur hvattir til að tengja saman fræði og vettvang og máta viðfangsefnin við eigin reynslu. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist íslenskum og erlendum rannsóknum á sviðinu og ígrundi hvaða lærdóm kennarar geta dregið af rannsóknaniðurstöðum um það hvers konar reynsla, uppeldi, samskipti og örvun heima og í skóla veita bestu forsendur fyrir góðan málþroska.

Meginumfjöllunarefni: Þróun málnotkunar í sögulegu samhengi, hvati, lífshættir og meðfæddir hæfileikar. Þróun málþroska frá fæðingu, hljóðþróun, þróun orðaforða, málfræði, og setningagerðar. Mikilvægi málörvunar heima og í skóla. Tengsl málþroska við annan þroska svo sem vitsmuna, félagsþroska og læsisþróun. Helstu frávik í máli og tali svo sem málþroskaröskun (DLD), framburðarfrávik og stam. Málþroski fjöl/tvítyngdra barna. Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og almennrar málörvunar. Mat á málþroska barna og margvísleg málörvun með það að meginmarkmiði að gefa börnum næg tækifæri til að efla málþroska sinn og til að verða öflugir málnotendur

X

Börn sem þurfa sérstakan stuðning í námi (KME119F)

Megintilgangur þessa námskeiðs er að þátttakendur :

  • þekki og skilji helstu kenningar, hugtök og nýlegar rannsóknir sem taka til áhættuþátta sem tengjast málþróun og læsi (lestrar og lesskilningi, stafsetningu og ritun) og samspil þessara þátta við nám og félagslegar aðstæður barna
  • þekki mikilvægi mál- og boðskiptafærni í skólasamfélaginu
  • kynnist og þjálfi sig í að beita kenningum og aðferðum snemmtækrar íhlutunar og fyrirbyggjandi kennslu við raunveruleg verkefni í skólum og leikskólum, í vinnu með börnum í áhættuhópum
  • kynnist hlutverki og starfsemi tengslastofnana og fagfólks sem þeir eru líklegir til að starfa með bæði innan skóla og utan hans.

Viðfangsefni:
Fjallað verður um hvernig mál og málþróun tengist námi og félagslegri þátttöku nemenda í áhættuhópum í skólasamfélaginu og hvernig koma má til móts við þarfir þeirra með því að beita viðeigandi þekkingu, kennsluháttum, þar með talið úrræðum altækrar hönnunar, bæði í kennslu og kennsluskipulagi. Meðal annars verður fjallað um:

  • tengsl málfrávika við einhverfu, ADHD, tvítyngi, námserfiðleika o.fl.
  • lögð er áhersla á úrræði sem efla nemendur í skólasamfélaginu og sem draga úr sérþörfum þeirra og efla þá í námi: í lestri, lesskilningi, ritun, stærðfræði og félagslegri þátttöku innan og utan skóla
  • kynntar verða aðferðir við að þekkja einkenni hjá börnum í áhættuhópum, bæði í leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskóla með áherslu á inngrip með aðferðum snemmtækrar íhlutunar (m.a. í mál- og tjáskiptavanda), fyrirbyggjandi kennslu og árangursríkum, sannreyndum kennsluaðferðum
  • lögð er áhersla á heildræna sýn börn í samstarfi við foreldra og sérfræðinga.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í formi fyrirlestra og umræðna, samhliða í rauntíma á Teams og í kennslustofu.  Margir gestafyrirlesarar koma með sérfræðileg innlegg í tvær staðbundnar lotur á önninni. Nemendur vinna einstaklingsverkefni, og hópverkefni þar sem lögð er áhersla og djúpan skilning á þörfum nemenda og úrræði við hæfi. 

X

Leiðtogar í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagi (STM015F)

Tilgangur námskeiðsins er að búa þátttakendur undir  að leiða skólastarf sem byggir á fræðilegri sýn á menntun án aðgreiningar í fjölmenningarlegu samfélagi (inclusive intercultural education), þ.e. þátttöku fjölbreytts nemenda hóps í skólastarfinu. Grunnþættir námskeiðsins eru  leiðtogahlutverkið, lýðræði, mannréttindi, samvinna og viðurkenning á auðlindum nemenda, þ.e. að þeir byggja á ólíkri reynslu og læra á mismunandi hátt. Áhersla er lögð á þróun leiðtoga sem byggir á samstarfi þar sem hlustað er eftir röddum nemenda, foreldra og samstarfsfólks um sýn þeirra á skólastarf.

Markmiðið er að þátttakendur öðlist færni í að greina og meta stöðu menntunnar án aðgreiningar í sínu starfsumhverfi og geti brugðist við þörfum skólasamfélagsins með lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.

Rýnt verður í framkvæmd og þróun á þessum sviðum og hvernig þessi áhersla hefur tekið á sig ólíkar myndir. Einnig munu þátttakendur greina eigin starfsvettvang, meta viðhorf, þekkingu og færni starfsfólks og gera aðgerðaáætlun sem tekur til uppbyggingar menntunar án aðgreiningar.

Námskeiðið fer fram með fyrirlestrum, umræðum, samstarfi og sjálfstæðri vinnu þátttakenda. Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Áhersla er lögð á að þátttakendur greini eigin viðhorf og skoðanir um leið og þeir kynna sér hugmyndir annarra. Þeir halda námsdagbók um athuganir sínar, lestur fræðigreina og ígrundun.

X

Fjöltyngi og kennslufræði (MAL103F)

Tungumál er nauðsynlegt tæki til tjáningar og samskipta og opnar dyr að þekkingu og skilningi á samfélögum. Þekking á tungumálum eykur víðsýni, stuðlar að vitsmunaþroska og betri skilningi á eigin menningu. Fjöltyngi tengist menntun, árangri og vellíðan nemenda.
Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur kynnist leiðum til að meta og nýta tungumála- og menningarauðlindir nemenda,  og geti beitt kennsluaðferðum sem byggja á tungumálaforða fjöltyngdra barna og ungmenna til að efla nám þeirra.

X

Kennslufræði íslensku sem annars máls (ÍET102F)

Um námskeiðið

Námskeiði þessu er ætlað að efla þekkingu og skilning þátttakenda á íslenskunámi barna og nemenda með erlendan bakgrunn. Fjallað verður um  kennslufræði og kenningar í kennslu íslensku sem annars máls. Öll viðfangsefni hafa það meginmarkmið að auka færni þátttakenda til að beita markvissum og faglegum kennsluaðferðum í kennslu íslensku sem annars máls og stuðning við íslensku í faggreinakennslu, en einnig að hvetja til gagnrýnnar hugsunar við beitingu kennsluaðferða. Til viðbótar verður fjallað um fjölmenningarleg hæfni, samstarf við fjölskyldur, móðurmál og fjöltyngi í skólum,  og tungumálanám á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að hvetja til stöðugrar þekkingarleitar þannig að þátttakendur taki mið af nýjustu rannsóknum og kenningum hér á landi sem erlendis. 

X

Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum (MAL102F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru kennsluhættir og námsaðstæður sem miða að því að efla árangur fjölbreyttra nemendahópa, huga að styrkleikum þeirra og veikleikum í skóla án aðgreiningar með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Fjallað er um algengustu sérþarfir nemenda og sérstök áhersla lögð á árangursríkar (gagnreyndar) leiðir til að mæta margbreytilegum þörfum nemenda og efla þá í námi, meðal annars til að draga úr vanda varðandi lestrarnám, hegðun, líðan, einbeitingu, ofvirkni og einhverfu. Samhliða er rætt um mikilvægi þess að hafa hæfileika og styrkleika nemenda ávallt í forgrunni og aðgreina erfiðleika frá eiginleikum einstaklinga. Einnig er fjallað um fjölmenningarkennslu og kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Kynntar eru helstu aðferðir við bekkjarstjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að bæta hegðun, félagsfærni, líðan og námsárangur fjölbreytts hóps nemenda. Fjallað er um þverfaglegt samstarf, teymisvinnu og samvinnu við foreldra barna með sérþarfir. Umfjöllunarefni námskeiðsins grundvallast á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og rannsóknum á því sem vel hefur gefist við að mæta fjölbreytilegum nemendahópi, með það að markmiði að veita öllum nemendum jafngild tækifæri í námi.

X

Mál og lestrarerfiðleikar (KME108F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum á lestrarörðugleikum og geti lagt mat á þær. Skoði uppruna og tengsl lestrarörðugleika við mál- og taugasálfræðilega þætti og samspil við kennslu og kennsluaðferðir. 

Viðfangsefni: Farið verður ítarlega í kenningar um tengsl lestrar- og málerfiðleika, þróun lesturs og lestrarlíkön verða rædd. Fjallað verður um helstu birtingarform mál- og lestrarörðugleika, og þær afleiðingar sem slíkir erfiðleikar geta haft á sjálftraust einstaklingsins, nám og námsárangur. Fjallað verður um helstu rannsóknir og kenningar á orsökum og einkennum dyslexíu og lagt mat á skilgreiningar. Skoðað verður hvernig meta má stöðu barna í lestri með hliðsjón af fræðikenningum og hvernig hægt er að draga úr og fyrirbyggja lestrarerfiðleika með snemmtækri íhlutun og einstaklingsmiðaðri kennslu í leikskóla og fyrstu bekkjum grunnskóla. Nemendur hljóta þjálfun í að meta stöðu eins eða fleiri nemenda í lestri (í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla) með tilliti til umskráningar og lesskilnings, kynnast aðferðum við að skima í áhættuhópa og leggja mat á kennsluaðferðir og kennsluefni með hliðsjón af rannsóknum og fræðikenningum.

Vinnulag: Fyrirlestrar og ígrundun fræðitexta með þátttöku nemenda, umræður, vettvangsathuganir, kannanir, hópverkefni, einstaklingsverkefni.

X

Stærðfræði í fjölbreyttum nemendahópi (KME111F)

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur kynnist kenningum og rannsóknum á því hvernig nemendur læra stærðfræði og geti beitt kennsluaðferðum sem henta við stærðfræðikennslu nemenda sem hafa ólíkar forsendur til náms.

Viðfangsefni
Þátttakendur kynna sér rannsóknir á stærðfræðinámi og hvernig skilningur á stærðfræði þróast. Þeir læra að greina þekkingu og skilning nemendahópsins og meta námsferli þeirra. Þeir kynna sér hvernig erfiðleikar í stærðfræði birtast, áhrif þeirra á nám nemenda og aðferðir við að greina þá. Þátttakendur afla sér þekkingar á kennsluaðferðum og námsúrræðum fyrir nemendur með ólíkar forsendur til náms, þ.m.t. með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn.

Vinnulag
Áhersla er lögð á að þróa námssamfélag sem allir taka virkan þátt í að móta. Hægt er að taka þátt á staðnum, með fjarfundabúnaði og á vefsvæði námskeiðsins. Haldnir verða fyrirlestrar, málstofur og umræðutímar. Nemar lesa fræðilega texta og leita svara við áleitnum spurningum um efnið. Þeir framkvæma rannsóknir, gera grein fyrir niðurstöðum og draga af þeim ályktanir. Þeir setja fram hugmyndir um hvernig byggja má upp og þróa námsumhverfi og stærðfræðikennslu. 

X

Samstarf á mótum skólastiga (KME004F)

Viðfangsefni á námskeiðinu eru hugmyndafræði og rannsóknir á námi barna þegar þau fara á milli skólastiga leikskóla, grunnskóla og frístundar. Skoðað verður hvað hugtökin þáttaskil (e. transition)samfella (e. continiuity) í námi barna og skólafærni (e. schoolreadiness) fela í sér. Byggt er á ólíkum sjónarhornum barna, foreldra og kennara. Rýnt verður í þætti, s.s. námskrár, viðhorf og hefðir sem hafa áhrif á þróun skólastarfs. Fjallað verður um fjölbreyttar námsleiðir barna á þessum tímamótum og kynntar verða nálganir í námi og kennslu sem byggja á rannsóknum og virkni barna með áherslu á leik, könnunaraðferð, (e. project approach), leik með einingakubba og heimspeki með börnum. Skoðaðar verða áherslur áætlana um samstarf leik- og grunnskóla.

X

Vettvangsnám í skólum (KME010F)

Viðfangsefni vettvangsnámsins er að kynna nemendum fyrir störfum sérkennara í leik-, grunn- eða framhaldsskólum. Nemendur sækja vettvangsnámið í valda skóla og starfa undir leiðsögn starfandi sérkennara og takast á við fjölbreytt verkefni. Þeir taka virkan þátt í störfum leiðbeinenda sinna í samræmi við kennsluáætlanir. Í vettvangsnáminu er miðað að því að nemendur kynnist starfi sérkennarans, skipulagi skólastarfs og framkvæmd sérkennslu. Það getur farið fram á þremur til sex vikum eftir samkomulagi við leiðbeinanda. Auk þess gera nemendur dagbók. Námskeiðið er skylda fyrir nemendur sem ekki hafa leyfisbréf til kennslu. Aðrir nemendur geta sótt um að fá að taka námskeiðið

X

Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagi (KME003M)

Námskeiðið miðar að því að nemendur dýpki þekkingu sína á stöðu og áhrifum trúarbragða í fjölmenningarsamfélagi. Fjallað verður um ýmsar kenningar er snerta trúarþörf og trúarreynslu mannsins, trúarlega sjálfsmynd og valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heims. Einnig siði og venjur tengdar trúariðkun, einkum er haft geta áhrif á skólastarf. Þá verður fjallað um trúarbrögð og siðfræði, sameiginleg gildi ólíkra trúarbragða, stöðu trúarbragða, menningarleg og trúarleg átök sem eiga sér stað í dag og fordóma og misskilning tengdan trúarbrögðum. Nemendur velja sér trúarbrögð sem þeir dýpka þekkingu sína á, einkum með tilliti til þess að þau endurspegli vaxandi menningarlegan og trúarlegan fjölbreytileika hér á landi og vinna jafnframt vettvangstengd verkefni.

Vinnulag
Fyrirlestrar, samræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Verkefni, m.a. vettvangstengt rannsóknarverkefni, og kynning í málstofum.

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði (MAL003F)

Markmiðið með námskeiðinu er að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.

Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið.  Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.

Helstu efnisþættir

  • Mismunandi skilgreiningar á hegðunar- og tilfinningaörðugleikum - alþjóðleg viðmið og flokkunarkerfi.
  • Hegðunar- og tilfinningaörðugleikar í samfélagslegu samhengi.
  • Helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaörðugleika barna og unglinga (conceptual models).
  • Viðbrögð skólasamfélagsins; nemendasýn og skólastefna - skóli án aðgreiningar, sérdeildir eða sérskólar? Ólík sjónarhorn við að skilgreina vandann.
  • Sértæk úrræði innan skólasamfélagsins og fræðilegur bakgrunnur þeirra.
  • Mismunandi aðferðir við virknimat (functional behavioral assessment) til að ákvarða hvaða þættir ýta undir hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda.
  • Gerð stuðningsáætlunar með margvíslegum aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun eða vanlíðan, kenna og styrkja viðeigandi hegðun og bregðast þannig við erfiðri hegðun þannig að dragi úr henni með tímanum og nemendum líði betur.
  • Aðferðir til að auka félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika.

Vinnulag
Í staðlotum verða fyrirlestrar auk verkefnatíma. Á kennsluvefnum Canvas verða birtar hljóðglærur og kennslubréf, og þar fara fram umræður úr völdum efnisþáttum. Námskeiðið er kennt með fjarnámssniði en mætingarskylda er í staðlotur. Námsmat er að mestu leyti fólgið í hópverkefnum. 

X

Nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum (MAL202F)

Námskeiðið er valnámskeið og ætlað þeim sem eru í sérkennslu- eða framhaldsskólakennaranámi. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn inn skipulag og framkvæmd stuðnings fyrir framhaldsskólanema sem eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðning í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Fjallað verður um kenningar og rannsóknir á sviði námsstuðnings og sérkennslu í framhaldsskólum með það fyrir augum að þátttakendur geti nýtt sér niðurstöður á skipulegan hátt. Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun og samstarf. Nemendur kynnast þeirri stoðþjónustu sem er í boði innan framhaldsskóla til að styðja við nemendur með sérþarfir eða fötlun.

X

Tengsl málþroska og læsis (KME204F)

Meginmarkmið námskeiðsins eru að gefa nemendum traustan fræðilegan grunn um tengsl málþroska og læsis á ýmsum stigum námsins: í leik-, grunn- og framhaldsskóla og að þeir efli færni sína í að beita árangursríkum kennsluaðferðum. Nemendur taki mið af þeim aldri sem hæfir sérsviði þeirra.

Meginumfjöllunarefnin eru:

  • Læsi og forsendur lestrarnáms: lestrarkennsla, snemmtæk íhlutun og stuðningur við börn sem gengur illa að ná tökum á tæknilegri lestrarfærni.
  • Hvernig málþroski og læsisþróun breytast samhliða aldri og aukinni alhliða námsfærni.
  • Hvernig virkni í leik-, grunn- og framhaldsskóla er bæði markmið í öllu námi og leið til að efla málþroska.
  • Hvað skynsamlegast er að gera þegar nemandi sýnir engan áhuga og/eða tómlæti (e. apathy) gagnvart lestri.
  • Hvernig kennarar geta nýtt niðurstöður rannsókna til að fjölga tækifærum allra barna til að efla stöðugt málþroska sinn og læsisfærni.
  • Hvernig hægt er að nýta hæfniviðmið við mat á málþroska og læsi barna

Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.

X

Hönnun námsefnis, stafræn miðlun og eflandi kennslufræði (SNU206F)

Á námskeiðinu verður unnið að hugmyndum, miðlun og efnisgerð á opinn og skapandi hátt í anda eflandi kennslufræði. Nemendur og kennarar ræða leiðir til að búa til og þróa margbreytilegt efni til nota í námi og kennslu. Farið verður yfir undirstöðuatriði námsefnisgerðar, þarfagreiningu og hönnunarferli með áherslu á efnisöflun, efnisskipan, notendaskil, gagnvirkni, yfirbragð og nýja miðla, meðal annars í ljósi fræðikenninga um nám og kennslu. Sérstakri athygli verður beint að efnisbyggingu, samspili miðla, yfirbragði efnis, gagnvirkni og notendaskilum. Tæpt verður á helstu þáttum miðlunar og bent á úrval verkfæra til hljóðvinnslu, myndvinnslu og miðlunar. Bent verður á möguleika fólgna í samvinnu og lausnaleit (prójekt-vinnu) við efnisgerð og farið yfir kosti fólgna í opnu menntaefni og endurblöndun efnis. Sérstakri athygli verður líka beint að efnisgerð nemenda í skóla í anda eflandi kennslufræði með áherslu á samvinnu og lausnaleit við efnistök og miðlun. Nemendur eiga val um viðfangsefni í efnisgerð, efnistök og vinnulag. Nemendur leggja drög að eða móta námsefni eða sagnaefni til nota í uppeldis- eða skólastarfi, oft með stærri verk í huga. Með efnisgerð og áætlunum á námskeiðinu má leggja grunn að lokaverkefnum í meistaranámi. Einnig má þegar svo ber undir leggja drög að þróunarstarfi, samstarfi og styrkumsóknum.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is

Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga

Fylgstu með Menntavísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Stakkahlíð

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.