Í skiptinámi eru skólagjöld við gestaskólann felld niður en nemendur greiða árlegt skrásetningargjald við Háskóla Íslands. Ef sótt er um skiptinám í gegnum Nordplus og Erasmus+ áætlanirnar er sjálfkrafa sótt um ferða- og dvalarstyrk. Alþjóðasvið auglýsir reglulega styrki til skiptináms utan Evrópu, t.d. Watanabe styrki til náms í Japan, Val Bjornson styrk við Minnesota-háskóla o.fl. Skiptinám er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna, sjá nánari upplýsingar á www.menntasjodur.is Úthlutun styrkja Eftirfarandi reglur gilda um úthlutun styrkja til nemenda vegna námsdvalar erlendis: Nemendur HÍ sem eru búsettir á Íslandi eiga þess kost að sækja um styrki fyrir námsdvöl erlendis úr ýmsum sjóðum. Hver dvöl má ekki vera styrkt af fleiri en einum styrktarsjóði. Nemendur HÍ sem eru búsettir erlendis geta sótt um styrk til námsdvalar í öðru landi. Ferðastyrkur er þó aðeins veittur nemendum sem búsettir eru á Íslandi. Námsdvalir í sama landi og nemendur hafa búsetu í eru ekki styrktar. Nemandi getur fengið styrk oftar en einu sinni á meðan á háskólanámi stendur. Heildarfjöldi styrktra mánaða í Erasmus+ getur þó ekki farið umfram 12 mánuði á hverju námsstigi. Starfsþjálfun að lokinni brautskráningu telst með því námsstigi sem útskrifast var á. Nemendur geta sótt um styrk fyrir styttri námsdvöl erlendis í 5-30 daga. Nemandi á grunn- eða meistarastigi getur fengið að hámarki einn styrk á hverju skólaári vegna styttri dvalar. Doktorsnemi getur fengið að hámarki einn styrk á hverju misseri til styttri dvalar og að hámarki 5 styrki á námstímanum. Nemandi sem tekur þátt í blandaðri námsdvöl, þar sem hluti fer fram sem fjarnám eða fjarþjálfun á netinu, getur einungis fengið styrk vegna þess hluta sem fer fram á staðnum hjá gestastofnun erlendis. Erasmus+ styrkir Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins, er ætlað að stuðla að auknu samstarfi meðal háskóla í Evrópu, styrkja Evrópu sem þekkingarsamfélag og styðja við mótun á samevrópsku, nútímavæddu háskólasamfélagi. Erasmus+ veitir nemendum evrópskra háskóla einstakt tækifæri til að öðlast alþjóðlega reynslu í námi sínu og skapa sér sérstöðu á vinnumarkaði. Erasmus+ áætlunin leggur auk þess mikla áherslu á inngildingu til að gera fleiri nemendum kleift að fara í námsdvöl erlendis. Þetta er gert með sérstökum fjárstuðningi til þeirra sem mæta hindrunum af ýmsum toga. Námsdvalir styrktar af Erasmus+ Í Erasmus+ skiptinámi við einhvern af samstarfsskólum HÍ eru tekin námskeið sem síðan eru metin til eininga við heimkomu. Nemendur sem sækja um Erasmus+ styrk til skiptináms fá dvalarstyrk og ferðastyrk. Í Erasmus+ starfsþjálfun er unnið hjá fyrirtæki eða stofnun að ákveðnu verkefni sem tengist námi viðkomandi. Nemendur sem sækja um Erasmus+ styrk til starfsþjálfunar fá dvalarstyrk og ferðastyrk. Í Erasmus+ blönduðum dvölum fer hluti námsdvalar fram á netinu. Blandaðar námsdvalir geta verið annað hvort langar (lágmark 2 mánuðir) eða stuttar (5-30 dagar). Blandaðar dvalir henta vel nemendum sem hafa ekki tök á því að fara í námsdvöl erlendis til lengri tíma. Nemendur sem sækja um Erasmus+ styrk fyrir blandaðar dvalir fá dvalarstyrk og ferðastyrk. Í öllum tilfellum eiga nemendur kost á að sækja um Erasmus+ inngildingarstyrk. Athugið að Bretland og Sviss eru ekki þátttakendur í Erasmus+ áætluninni. Nemandi getur fengið Erasmus+ styrk oftar en einu sinni á meðan á háskólanámi stendur. Heildarfjöldi mánaða getur ekki farið umfram 12 mánuði á hverju námsstigi. Starfsþjálfun að lokinni brautskráningu telst með því námsstigi sem útskrifast var á. Í blönduðu námi er einungis talinn sá náms- og/eða þjálfunartími sem fer fram erlendis á staðnum. Styrkupphæðir í Erasmus+ Uppihaldsstyrkur fyrir lengri dvalir er 490-606€ á mánuði (150€ bætast við grunnupphæðina í starfsþjálfun). Uppihaldsstyrkur fyrir styttri dvalir er 79€ á dag fyrstu 14 dagana, síðan 56€ á dag. Ferðastyrkur er á bilinu 275-1500€ eftir áfangastað. Hægt er að sækja um viðbótarferðastyrk til Alþjóðasviðs ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann. Sýni þátttakandi fram á að aðalferðamáti ferðarinnar hafi verið vistvænn (miðað við fjölda kílómetra) er veittur aukastyrkur á bilinu 30-80€. Nánari upplýsingar um styrkupphæðir skólaárið 2023-2024 Nánari upplýsingar um styrkupphæðir skólaárið 2024-2025 Erasmus+ inngildingarstyrkir Nemendur Háskóla Íslands sem fara í skiptinám eða starfsþjálfun á vegum Erasmus+ eiga kost á að sækja um inngildingarstyrki til Alþjóðasviðs. Sótt er um styrkinn um leið og sótt er um námsdvöl erlendis. Nánari upplýsingar um inngildingarstyrki Aurora styrkir Nemendur sem hafa verið samþykktir til þátttöku í námskeiði eða viðburði á vegum Aurora-samstarfsins sem felur í sér styttri dvöl erlendis, að lágmarki tvo daga og að hámarki tíu daga, eiga þess kost að sækja um styrk. Upphæðir miðast við styrkupphæðir í Erasmus+. Dvalarstyrkur er 70€ á dag fyrir tvo til tíu daga. Nemendur geta sótt lengri námskeið en hámark tíu dagar eru styrktir. Ferðastyrkur er á bilinu 275-1500€ eftir áfangastað. Nemendur sækja um styrkinn með því að fylla út þetta umsóknarform. Styrkveitingin er háð því að gestaskólinn hafi samþykkt umsóknina og samþykktarbréf því til staðfestingar sé hengt við umsóknina ásamt námsferilsyfirliti á ensku, með röðun. Jafnframt er mælst til þess að Aurora námskeið séu metin sem hluti af námi nemenda, ýmist í formi eininga eða með skráningu í skírteinisviðauka. Nemendur eru hvattir til að útbúa námsamning og óska eftir samþykki deildar því til staðfestingar. Styrkurinn er háður því að námskeiðið sé kennt sem staðnám í gestalandinu og að nemandi uppfylli eftirfarandi skilyrði: Er skráður í Háskóla Íslands og hefur greitt skráningargjald Hefur lokið a.m.k. 60 ECTS einingum áður en dvölin hefst (ef viðkomandi er í grunnnámi) Nordplus styrkir Nordplus er menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið áætlunarinnar er að efla og þróa norræna samvinnu í menntamálum á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum, styðja við norræn tungumál og menningu og stuðla að sameiginlegum menningarskilningi landanna. Innan Nordplus er lögð áhersla á að fleiri en þrír háskólar séu í samstarfi á tilteknu fræðasviði og myndi þannig fagnet og er Háskóli Íslands þátttakandi í mörgum og fjölbreyttum fagnetum. Að auki er Háskóli Íslands þátttakandi í þverfaglega netinu Nordlys sem gagnast sérstaklega þeim nemendum sem ekki eiga þess kost að sækja um styrki úr fagneti. Nordplus skiptinámsstyrkur samanstendur af ferðastyrk að hámarki 660€ og að hámarki 200€ dvalarstyrk á mánuði. Einnig er hægt að sækja um styrk vegna styttri heimsókna, lágmark 5 daga og er dvalarstyrkur þá hámark 70€ á viku. Nemendur finna og sækja um námskeið sjálfir og geta sótt um styrk í viðeigandi Nordplus-neti. Doktorsnemar geta ekki sótt um Nordplus styrk. Alþjóðasvið heldur utan um Nordlys-netið og geta nemendur sótt um styrki fyrir námsdvöl til skrifstofunnar. Auk hefðbundinna misserisdvala er hægt að sækja um styrki fyrir styttri námskeiðum, allt frá fimm dögum. Nemendur þurfa þá að finna námskeið við hæfi við einhvern af samstarfsskólunum í Nordlys-netinu. Námskeiðin verða að gefa ECTS einingar og vera samþykkt af deild nemenda í HÍ. Til dæmis geta nemendur tekið sumarnámskeið eða lotunámskeið og einnig er hægt að sækja um að taka námskeið hjá UNIS á Svalbarða. Frekari upplýsingar má nálgast á Alþjóðasviði. Nemendur eiga kost á að sækja um viðbótarstyrk vegna fötlunar til að mæta viðbótarkostnaði. Sótt er um viðbótarstyrk til EDUFI (Finnish National Agency for Education). Aðrir styrkir Í einstaka tilfellum bjóðast styrkir til skiptináms utan Evrópu. Upplýsingar um þá styrki veitir starfsmaður Alþjóðasviðs eftir því sem við á. Watanabe-styrkir Um er að ræða styrki til nemenda og kennara frá háskólum í Japan eða við HÍ sem vilja stunda hluta af námi sínu eða rannsóknum við HÍ eða í Japan. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til námsdvalar eða rannsókna í þessum löndum. Sjóðurinn veitir líka ferða- og dvalarstyrki til nýdoktora, kennara og fræðimanna. Styrkirnir standa bæði nemendum í grunn- og framhaldsnámi til boða, auk þess sem sjóðnum er ætlað að stuðla að kennaraskiptum. Veittir eru styrkir árlega Sjá nánari upplýsingar á Sjóðavef HÍ Styrkur til náms við Minnesota-háskóla Nemendur sem sótt hafa um skiptinám við Minnesota-háskóla geta sótt um styrk sem nemur skólagjöldum og dvalarkostnaði. Þeir sem lokið hafa prófgráðu frá Háskóla Íslands og stefna á fullt framhaldsnám við Minnesota-háskóla koma einnig til greina. Skilyrði er að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari. Val Björnson sjóðurinn hefur styrkt íslenska nemendur til náms í Minnesota í áratugi. Nánari upplýsingar Styrkir til náms við Danish School of Education, Aarhus University Ragna Lorentzen sjóðurinn býður íslenskum nemendum sem sækja um nám á grunn- eða framhaldsstigi í menntavísindum við Aarhus University að sækja um námsstyrk. Styrkirnir eru aðallega veittir nemendum í grunnnámi eða meistaranámi en nemendur í doktorsnámi geta einnig sótt um. Bæði nemendur sem fara til Aarhus í skiptinám og nemendur sem sækja um á eigin vegum geta sótt um styrkinn. Styrkirnir eru ætlaðir nemendum með takmörkuð fjárráð. Nánari upplýsingar Styrkir fyrir doktorsnema Doktorsnemar eiga kost á að sækja um styrki í fjölmarga rannsóknasjóði facebooklinkedintwitter