Stjórnmálafræðideild á í margskonar samstarfi við ýmsa aðila, bæði innanlands og erlendis. Tengsl við atvinnulífið eru góð og vinna fjölmörg fyrirtæki og stofnanir með deildinni. Samstarf Háskólans annars vegar og fyrirtækja og opinberra aðila hins vegar skilar starfsmönnum og nemendum skólans miklu. Öflug samvinna er atvinnulífinu ekki síður mikilvæg en skólanum þar sem Háskólinn hefur verið driffjöður íslensks atvinnulífs og gegnir enn lykilhlutverki í því að gera Ísland samkeppnishæft á alþjóðavettvangi. Öflugt alþjóðlegt samstarf Háskóli Íslands starfar í alþjóðlegu umhverfi og á Stjórnmálafræðideild samstarf við fjölmarga erlenda háskóla og rannsóknastofnanir um rannsóknir, nemendaskipti, starfsmannaskipti og fleira. Öllum nemendum deildarinnar gefst kostur á að taka hluta af námi sínu við erlenda háskóla og fjöldi erlendra nema stundar nám við deildina ár hvert. Stjórnmálafræðideild leggur mikla áherslu á alþjóðleg samskipti í öllu starfi sínu og vinnur stöðugt að því að styrkja þau og efla. Alþjóðlegt samstarf Nám og rannsóknir í tengslum við samfélagið og umheiminn Deildin leggur ríka áherslu á samstarf við aðrar deildir Háskóla Íslands, innlendar stofnanir, samtök og fyrirtæki svo og erlenda fræðimenn og háskóla. Þetta samstarf birtist m.a. í grósku í starfi fjögurra stofnana sem Stjórnmálafræðideild rekur eða á aðild að: Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetur um smáríki MARK- Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna Stofnanirnar skipuleggja fjölda opinna viðburða sem nemendur eru hvattir til að sækja samhliða náminu. Boðið er upp á fyrirlestra, málstofur og umræðufundi um alþjóðamál, Evrópumál, íslensk stjórnmál, opinbera stjórnsýslu og stefnumótun, jafnréttis- og kynjafræði og þjóðmál líðandi stundar. Alþjóðlegur sumarskóli Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki fjallar um öryggis- og varnarmál smáríkja í Evrópu. Sérstök áhersla er lögð á stöðu smáríkja í samrunaþróun Evrópu. Helstu sérfræðingar heims í smáríkjafræðum kenna við skólann ásamt kennurum Stjórnmálafræðideildar HÍ. Með því að sækja sumarskólann fá nemendur kjörið tækifæri til að sitja alþjóðlegt námskeið með erlendum stúdentum sem koma frá 17 háskólum í Evrópu og Bandaríkjunum sem standa að skólanum. Sumarskólinn stendur í tvær vikur og er haldinn við HÍ á miðju sumri. Skólinn hefur verið starfræktur frá árinu 2003 og er styrktur af ERASMUS. Vefsíða Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki Stúdentaskipti Langar þig að fara í skiptinám til útlanda? Nemendur Stjórnmálafræðideildar geta tekið hluta af námi sínu við erlendan háskóla og fengið metið inn í nám sitt. Háskóli Íslands á aðild að ýmsum samstarfsnetum, s.s. Nordplus og Erasmus+. Einnig hafa verið gerðir samningar við einstaka háskóla erlendis. Allar upplýsingar um samstarfsnet og samninga er að finna á vefsíðu Alþjóðasviðs. Af hverju að fara í skiptinám? Námsdvöl í útlöndum veitir nemendum tækifæri til að kynnast háskólalífi í öðrum löndum, ásamt því að auka færni sína í tungumálum. Skiptinám veitir jafnframt möguleika á að taka námskeið sem ekki eru kennd við Háskóla Íslands. Skilyrði Nemandi þarf að hafa lokið a.m.k. 60 einingum áður en hann fer í skiptinám. Allir sem fara sem skiptistúdentar þurfa að skrá sig í Háskóla Íslands eins og venjulega og greiða innritunargjöldin áður en þeir fara utan. Umsóknarferlið a) Hefja vinnu við umsóknarferlið a.mk. sex mánuðum áður en umsóknarfrestur rennur út. b) Afla upplýsinga hjá Alþjóðasviði, annað hvort með heimsókn á Háskólatorg eða á vefsíðu. Eftir að nemandi hefur valið skóla: c) Gera eins nákvæma námsáætlun og mögulegt er á þar til gerð umsóknareyðublöð ,,Learning Agreement". Við val á námskeiðum þarf að hafa í huga að velja ekki námskeið sem eru keimlík þeim sem nemandi hefur þegar lokið, þau fást ekki metin. d) Deildarstjóri Stjórnmálafræðideildar á skrifstofu deildarinnar skrifar undir ,,Learning Agreement" fyrir hönd Stjórnmálafræðideildar. Ef nemandi hefur ekki upplýsingar um námskeiðsframboð í skiptiháskóla áður en skila þarf inn umsókn til Alþjóðasviðs, skrifar deildarstjóri undir með fyrirvara um val á námskeiðum og nemandi sendir upplýsingar til hans um leið og þær liggja fyrir. e) Ef breytingar verða frá upphaflegri námsáætlun þarf aftur að leita samþykkis deildar. Mat á skiptinámi Í flestum tilfellum er skiptinám metið sem val inn í námið, þá nægir að koma með námskeiðslýsingu. Ef nemandi óskar eftir að fá námskeið metið í stað skyldunámskeiðs þarf að koma með námskeiðslýsingu og leslista námskeiðsins. Þegar misserinu lýkur og stúdent hefur fengið einkunnir sendir hann þær til skrifstofu Stjórnmálafræðideildar. Deild samþykkir niðurstöðuna úr skiptinámi misserisins, ef hún samræmist upphaflegri áætlun. Ekki er endanlega gengið frá mati fyrr en staðfest afrit af einkunnum hefur borist Stjórnmálafræðideild. Nemendur ættu sérstaklega að hafa í huga að prófatímabil og einkunnaskil í gestaskóla geta verið frábrugðin því sem er í HÍ. Því er ekki mælt með að nemendur fari í skiptinám á sínu síðasta námsmisseri. Innlent samstarf Stjórnmálafræðideild á í samstarfi við fjölbreyttan hóp innlendra aðila. Fyrst ber að nefna samstarfsstofnanir deildarinnar, Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetur um smáríki, MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, og Félagsvísindastofnun. Auk þess hefur Stjórnmálafræðideild öflug og mikil tengsl við atvinnulífið, annað hvort vegna rannsóknasamstarfs eða námskrafna. Nemendur í MPA-námi í opinberri stjórnsýslu vinna gjarnan lokaverkefni sín í tengslum við atvinnulífið og ýmsir aðilar og stofnanir bjóða nemendum aðstöðu til náms. Samningar Stjórnmálafræðideild tekur virkan þátt í erlendu og innlendu samstarfi bæði við háskóla og rannsóknarstofnanir. Skrifstofa alþjóðasamskipta í Háskóla Íslands hefur yfirumsjón með viðamiklum samstarfssamningum vegna náms og starfa við erlenda háskóla. Nánari upplýsingar er að finna á vef Skrifstofu alþjóðasamskipta. facebooklinkedintwitter