Stýrihópur starfar skv. samstarfssamningi Háskóla Íslands (HÍ) og Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) um samskipti og samvinnu LSH og HÍ. Um er að ræða samstarf í kennslu, rannsóknum og þjálfun í heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við HÍ og stundaðar eru á LSH. Samstarfssamningurinn var undirritaður 13. desember 2018 og endurnýjaður síðast 3. júlí 2024.
Rektor HÍ hefur, í umboði háskólaráðs, yfirumsjón með framkvæmd samningsins af hálfu HÍ. Forstjóri LSH hefur umsjón með framkvæmd samningsins, fyrir hönd stjórnarnefndar, af hálfu LSH. Vísinda-, mennta- og nýsköpunarsvið LSH (VMN) og Heilbrigðisvísindasvið HÍ (HVS) fara með daglega framkvæmd samningsins fyrir hönd samningsaðila.
Hlutverk stýrihópsins er að móta stefnu í sameiginlegum málefnum HÍ og LSH; sjá um framkvæmd samningsins, undirsamninga er honum tengjast og gera áætlanir um framkvæmd þeirra. Einnig að fjalla um sameiginleg málefni svo sem ný störf sem krefjast akademískrar hæfni og breytingar á störfum á LSH sem tengjast báðum stofnunum.
Aðilar skulu komast að sameiginlegri niðurstöðu um skilgreiningu starfs og starfsskyldur áður en starf er auglýst. Jafnframt skal stýrihópurinn eiga frumkvæði að endurskoðun samningsins ef ástæða þykir til.
Reglur
- Starfsreglur og erindisbréf Hugverkanefndar
- Reglur um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískrar nafnbótar, nr. 888/2016.
Unnið er að endurskoðun fylgiskjala með samstarfssamningi HÍ og LSH