185 brautskráð á 40 ára afmæli Endurmenntunar HÍ
Alls 185 voru brautskráð frá Endurmenntun HÍ í Háskólabíói síðastliðinn föstudag. Að þessu sinni var um að ræða námsbrautirnar sálgæslu, jákvæða sálfræði, verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun, leiðsögunám og löggildingu fasteigna- og skipasala. Viðburðurinn var óvenju hátíðlegur að þessu sinni vegna 40 ára afmælis Endurmenntunar á árinu.
Félagar í Lúðrasveitinni Svani spiluðu létt íslensk dægurlög í anddyrinu og tóku þannig vel á móti þeim fjölda góðu gesta sem var viðstaddur athöfnina. Halla Jónsdóttir endurmenntunarstjóri bauð öll velkomin í sinni opnunarræðu. Þá ávarpaði Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, samkomuna og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, vakti ánægju með nærveru sinni og flutti hátíðarræðu þar sem hann hrópaði ferfalt húrra fyrir útskriftarnemum í lokin. Hægt er að lesa ræðuna í heild hér. Einnig flutti Anna Hulda Júlíusdóttir, nemi í sálgæslu, hvetjandi útskriftarræðu fyrir hönd nemenda. Tónlistarkonan hæfileikaríka og einlæga, Una Torfadóttir, lék ljúf lög á milli atriða.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var meðal þeirra sem ávörpuðu útskriftarnema á brautskráningu Endurmenntunar í Háskólabíói á föstudag.
„Ósk okkar hjá Endurmenntun HÍ er að veganestið sem þessi góði hópur fer með út í lífið héðan einkennist af stolti, þroska, ánægju, góðum minningum og alls kyns félagslegum tengingum sem gefa fjölbreytta möguleika í framtíðinni,“ segir á vef Endurmenntunar.
Háskóli Íslands færir útskriftarnemum Endurmenntunar innilegustu hamingjuóskir með áfangann.
Myndir frá útskriftarathöfninni sjálfri og fögnuði nemenda og ástvina þeirra má finna á vef Endurmenntunar.