290 spennandi rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum
Nú styttist í 18. ráðstefnuna í líf- og heilbrigðisvísindum en hún verður haldin á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar 2017. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir ráðstefnunni sem er ætlað að miðla því sem er efst á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum hverju sinni og stuðla að auknu þverfræðilegu samstarfi.
Á dagskrá eru kynningar á um 290 rannsóknum sem ná yfir öll fræðasvið líf- og heilbrigðisvísinda. Til marks um fjölbreytnina þá spannar umfjöllunarefnið allt frá stofnfrumum og sýklafræði til íþrótta, skurðlæknisfræði og andlegrar og líkamlegrar heilsu manna á öllum æviskeiðum. Áhersla er lögð á að málstofur séu eins þverfræðilegar og unnt er til þess að tengja saman vísindafólk úr ólíkum áttum.
Tvær nýjungar verða kynntar á 18. ráðstefnunni. Boðið verður upp á málstofur sem fara að öllu leyti fram á ensku. Þetta er gert til þess að koma til móts við vaxandi fjölda enskumælandi nemenda og starfsfólks við Háskóla Íslands. Þá verða einnig tvær sérstakar gestamálstofur á dagskrá þar sem skipulagning og val á efni er í samstarfi við utanaðkomandi sérfræðinga.
Önnur málstofan er á vegum Sýklafræðideildar Landspítala og Barnaspítala Hringsins og nefnist Árangur pneumókokkabólusetningar á Íslandi. Hin er á vegum Félags lýðheilsufræðinga, Faralds- og tölfræðifélagsins og Matvæla- og næringarfræðifélags Íslands og nefnist Sykurneysla Íslendinga - Lýðheilsuógn?
Efnt verður til opinna fyrirlestra fyrir almenning þar sem fjallað verður á aðgengilegan hátt um málefni úr líf- og heilbrigðisvísindum sem hafa verið í sviðsljósinu undanfarið. Annars vegar verður fjallað um stofnfrumur. Miklar vonir eru bundnar við nýtingu stofnfruma í lækningaskyni en hvað eru stofnfrumur, hvernig virka þær í líkamanum og hvernig má nota eiginleika þeirra í meðferðar- og rannsóknarskyni? Hins vegar verður fjallað um hamingju og sjálfsmynd í neyslusamfélagi nútímans. Hverjar eru sálfræðilegar afleiðingar hugmyndafræði neyslusamfélaga og hver eru tengsl efnishyggju við hamingju, líkamsmynd og skuldasöfnun?
Tveir áhugaverðir gestafyrirlesarar munu einnig taka til máls á ráðstefnunni þar sem þjóðarátak gegn mergæxlum og misnotkun á marktæknihugtakinu í rannsóknum verða til umfjöllunar.
Ágrip ráðstefnunnar verða birt í fylgiriti Læknablaðsins sem dreift er á ráðstefnunni og gert aðgengilegt á heimasíðu Háskóla Íslands.
Þessi fjölbreytta dagskrá og mikla þátttaka endurspeglar þá grósku sem ríkir í líf- og heilbrigðisvísindum hér á landi um þessar mundir.
Allir eru velkomnir á ráðstefnuna og aðgangur er ókeypis.
Takið dagana frá og fjölmennið!
Smellið hér til að skrá þátttöku í ráðstefnunni.
Skoða dagskrá ráðstefnunnar.
Ráðstefnan á Facebook.