Áfallastreituröskun tengd auknum líkum á hjartasjúkdómum
Ný rannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi sýnir að fólk sem glímt hefur við áfallastreituröskun er í aukinni áhættu á að greinast síðar með hjarta- og æðasjúkdóma. Niðurstöður rannsóknarinnar birtast í dag í hinu virta vísindatímariti The British Medical Journal (BMJ).
Rannsóknin byggist á sænskum heilsufarsgagnagrunnum en á rannsóknartímabilinu, sem spannaði yfir 25 ár, voru yfir 130 þúsund einstaklingar greindir með áfallastreituröskun eða aðrar raskanir tengdum áföllum eða þungbærri lífsreynslu. Áhætta þessara einstaklinga á að greinast síðar með hjarta- og æðasjúkdóma var borin saman við alsystkini þeirra og óskylda einstaklinga á sama aldri og af sama kyni.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einstaklingar með áfallastreitutengdar raskanir voru að meðaltali meira en 60% líklegri en systkini þeirra að greinast með hjarta- og æðasjúkóm á fyrsta árinu eftir greiningu á áfallatengdum röskunum og nær 30% líklegri á árunum þar á eftir. Hættan á hjartabilun var einstaklega há, eða um sjöföld á við samanburðarsystkini, á fyrsta árinu eftir greiningu áfallatengdra raskana og áhættan á slagæðastíflu um tvöföld á árunum þar á eftir. Að auki kom í ljós að tengsl áfallatengdra raskana voru sterkari við hjarta- og æðasjúkdóma sem áttu sér stað fyrir 50 ára aldur.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Huan Song, nýdoktor við sömu deild, fara fyrir rannsókninni sem er unnin í samstarfi við Guðmund Þorgeirsson, prófessor emeritus og hjartalækni á Landspítala, ásamt fjölda annarra vísindamanna við Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Þau segja niðurstöðurnar mikilvægan áfanga í að auka þekkingu á áhrifum áfalla og áfallastreitu á þróun ýmissa hjarta- og æðasjúkdóma. „Fyrri rannsóknir á þessu sviði byggjast flestar á athugunum á bandarískum hermönnum, s.s. aðallega karlmönnum með ákveðnar tegundir áfalla að baki. Sökum smæðar hafa fyrri rannsóknir heldur ekki getað tekið til allra þeirra hjarta- og æðasjúkóma sem okkar rannsókn hefur nú varpað ljósi á. Samanburður á systkinum í okkar rannsókn gerir enn fremur kleift að draga ályktanir um tengsl áfallatengdra raskana og þróun hjarta- og æðasjúkdóma þegar tekið er tillit til ýmissa erfða- og umhverfisþátta í barnæsku. Það þarf vissulega að staðfesta þessar niðurstöður með frekari rannsóknum og varpa frekara ljósi á undirliggjandi skýringarþætti og við erum með ýmsar slíkar rannsóknir í undibúningi en rannsóknin Áfallasaga kvenna er meðal annars mikilvægur liður í því samhengi,“ segir Unnur.