Skip to main content
1. ágúst 2019

Áfallatengdur svefnvandi

""

Þegar fjallað er um mikilvægi heilbrigðs lífernis er jafnan minnst á gott mataræði og nægan svefn. „Sefur þú nú sætt og rótt, sveipuð í rökkri og yl,“ segir Þorsteinn Eggertsson í texta við lag Gunnars Þórðarsonar sem gerir svefninn að viðfangsefni eins og fjölmargir íslenskir listamenn hafa gert í gegnum tíðina. En svefninn er ekki bara hugðarefni skáldanna því hann er eitt af því sem fólk ræðir sín á milli yfir fyrsta kaffibollanum. Í þúsundir ára hafa menn rýnt í drauma og reynt að tengja þá við daglega lífið, stundum með aðferðum sálfræðinnar og ósjaldan með afar óvísindalegum aðferðum þar sem draumar eiga að vera vísbending um hið ókomna. Í Íslendingasögum eru draumar t.d. mikilvægir sem forspár fyrir framvindu sögunnar og til að auka spennu og tengja saman hið yfirskilvitlega við daglegan veruleika.

Edda Björk Þórðardóttir, nýdoktor í lýðheilsuvísindum, talar meira um svefninn en flestir því hún rannsakar þetta fyrirbæri og draumana sem eru jafnan fylgifiskar svefnsins. „Svefninn er heillandi fyrirbæri,“ segir Edda Björk um þetta magnaða fyrirbæri sem er okkur öllum lífsnauðsynlegt en ekki endilega sjálfgefið. „Hvað gerist í svefni er okkur að mörgu leyti enn framandi. Ef við myndum neita okkur alfarið um svefn yrðum við kolrugluð, upplifðum minnisleysi og ofskynjanir og dýratilraunir hafa sýnt að svefnleysi getur að lokum leitt til líffærabilunar.” 

Áfallasaga kvenna undirstaða í rannsókninni
„Flest okkar sem höfum misst svefn vegna álags eða vöku ungra barna vitum hvað svefnleysi getur haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu okkar. Mikilvægt er að kortleggja umfang vandans og einkenni til að geta þróað árangursríka meðferð,“ segir Edda Björk sem hefur starfað hjá Landlækni og verið einn af ritstjórum veftímaritsins Heilsan okkar. Þar hefur hún fjallað um áföll og víðtæk áhrif þeirra, ekki síst á svefn. Nú starfar Edda Björk sem nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands.

„Stundum er ekki á vísan að róa með svefninn,“ segir Edda Björk, „svefnvandamál eru vel þekkt og stundum geta þau tengst erfiðri lífsreynslu.“ 

Í rannsóknum sínum nýtir hún gagnagrunninn úr verkefninu Áfallasaga kvenna, með sérstaka áherslu á tengsl áfalla við svefnvanda þátttakenda. Áfallasaga kvenna er víðamikil og fjölmenn rannsókn á vegum Læknadeildar Háskóla Íslands þar sem öllum konum á Íslandi var boðin þátttaka. Rúmlega 30 þúsund þeirra skráðu sig í rannsóknina sem hefur myndað öflugan grunn og gullnámu fyrir Eddu Björk og aðra vísindamenn. Markmiðið með söfnun gagnanna er að bæta lýðheilsu á Íslandi og ekki síst þeirra kvenna sem orðið hafa fyrir áföllum á lífsleiðinni. 

Draumar hafa áhrif á gæði svefns
Edda Björk beinir m.a. sjónum sínum að draumum en þeir geta haft veruleg áhrif á gæði svefnsins. Að sögn Eddu Bjarkar getur fólk sem hefur ekki náð að vinna úr áfalli sem þau hafa upplifað fengið martraðir með jafnvel líkamlegum viðbrögðum á borð við að sparka og öskra í svefni. „Eftir alvarleg áföll á sér stað mikil úrvinnsla í heilanum og hluti hennar á sér stað að nóttu til. Ef fólk nær ekki að vinna úr áfallinu geta áfallatengd svefnvandamál orðið þrálát og staðið yfir í áraraðir eftir áfallið eða áföllin, jafnvel í áratugi. Þetta getur valdið verulegri lífsgæðaskerðingu og jafnvel líkamlegum heilsubresti.” Hún bætir því við að sumir sem verði fyrir þungbærri lífsreynslu á borð við ofbeldi og slys upplifi áfallastreitu eftir atburðinn en eitt af einkennum hennar sé einmitt þrálátur svefnvandi. 

Edda Björk upplýsir að erfitt hafi reynst að vinna á svefnvanda með hefðbundinni meðferð við áfallastreitu. „Nýlega hefur komið fram sú hugmynd að þessi áfallatengdu svefnvandamál séu önnur röskun en áfallastreita og þar af leiðandi þurfi að þróa önnur meðferðarúrræði við þessum einkennum.” 

Ekki þarf að efast um gildi rannsóknar sem miðar að því að bæta svefn fólks, auka heilbrigði og bæta meðferðir vegna vandamála sem tengjast áföllum. „Vel unnar og ígrundaðar rannsóknir eru undirstaða nýrrar þekkingar,“ segir vísindakonan. „Það er gríðarlega mikilvæg fjárfesting fyrir einstaklinginn og samfélagið.“

Edda Björk Þórðardóttir