Áhersla á opið, frjálst og alþjóðlegt vísindasamfélag
- Skýr skilaboð frá fundi rektora norrænna háskóla í Brussel
Alþjóðlegt samstarf háskóla sem nær út fyrir Evrópu, alþjóðleg akademísk grunngildi og stefnumótun byggða á vísindum er meðal þess sem leggja þarf aukna áherslu á að mati rektora norrænna háskóla sem funduðu með fulltrúum ýmissa stofnana Evrópusambandsins í Brussel í upphafi vikunnar. Rektorarnir sendu frá sér yfirlýsingu með sex lykilskilaboðum sem snerta framtíð evrópsks og þar með norræns vísindasamfélags.
Rektorarnir komu saman á svokölluðum Norrænum háskóladögum 26. og 27. september en þeir voru skipulagðir á vegum Norrænu háskólasamtakanna (NUS). Ísland leiðir þau um þessar mundir undir forystu Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, sem var í lykilhlutverki á ráðstefnunni í Brussel.
Alls sóttu rektorar eða aðstoðarrektorar 62 norrænna háskóla Norræna háskóladaga að þessu sinni og þar gafst gott tækifæri til að ræða við háttsetta fulltrúa ESB um norrænar áherslur í málefnum háskóla, vísinda og nýsköpunar og samhliða því þungann í framtíðarstefnumótun í rammaáætlunum ESB, Horizon Europe og Erasmus+. Rektorarnir funduðu m.a með Margrethe Vestager, varaforseta og framkvæmdastjóri samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar ESB, Signe Ratso, starfandi framkvæmdastjóra stjórnarsviðs rannsókna og nýsköpunar, og Mariu Leptin, forseta Evrópska rannsóknarráðsins, en Jón Atli stýrði einmitt pallborðsumræðum með henni og forsvarsmönnum norrænnu rektoraráðanna.
Að norrænu háskóladögunum loknum sendu rektorar norrænu háskólanna frá sér yfirlýsingu þar sem þeir reifuðu sameiginlega sýn sína á Evrópska þekkingarsvæðið (e. Europan Knowledge Area). Þar leggja þau áherslu á sex lykiliatriði:
- Að áfram verði höfuðáhersla á akademískt frelsi háskólafólks og sjálfstæði háskólastofnana í bæði rannsóknum, kennslu og miðlun, án ótta við samfélagsleg, pólitísk eða trúarleg afskipti. Í þessu samhengi þurfi þó að íhuga að hverfa frá óskilgreindum hugtökum eins og evrópskum gildum og horfa til akademískra grunngilda enda séu háskólar alþjóðlegar stofnanir í eðli sínu og gildi þeirra sömuleiðis.
- Að norrænir háskólar séu reiðubúnir til samtals við Evrópusambandið og aðildarlönd þess um að efla stefnumótun byggða á vísindum. Innan háskólanna verði til þekking á mörgum sviðum sem nýtist til að takast á við ýmsar af helstu áskorunum samtímans, t.d. þær sem skilgreindar eru í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Tryggja þurfi að þekking úr háskólunum berist til stefnumótenda í samfélögum en jafnframt að vísindafólk geti sinnt slíkri stefnumótun án hættu á hótunum og áreitni.
- Að allar nýjar áherslur ESB í háskóla – og vísindum séu gerðar í góðu samráði við aðildarríki og háskóla þannig að þeir þær séu í takti við þarfir og markmið aðildarríkja og háskólasamfélaga þar. Háskólar gegni lykilhlutverki í að framfylgja stefnumörkun ESB í vísindum og með góðu samstarfi og samlegð megi skapa Evrópsk rannsóknasvæði þar sem háskólar blómstra.
- Að áfram verði lögð áhersla á að fjárfesta í framúrskarandi rannsóknum, menntun og nýsköpun til þess að styðja við samfélög í þeim grænu og stafrænu umbreytingum sem þau eru að ganga í gegnum. Háskólar gegni lykilhlutverki í þessum umbreytingum, bæði með þróun nýrra og sjálfbærari lausna fyrir samfélög og með menntun fólks til nýrra tækifæra í breyttum samfélögum.
- Að aukin áhersla verði á alþjóðlegt samstarf utan Evrópu á sviði rannsókna og nýsköpunar til þess að efla samkeppnishæfni Evrópulanda í glímunni við ýmsar áskoranir, eins og faraldra og loftslagsbreytingar. Kórónuveirufaraldurinn hafi undirstrikað mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði vísinda. Slíkt samstarf þurfi þó að vera undir merkjum akademísks frelsis og heilinda.
- Að áfram verði lögð áhersla á opin vísindi en rannsókna- og nýsköpunaráætlanir ESB hafi verið með þeim opnustu í heiminum. Lýsa norrænir háskólar sig reiðubúna til að verja og varðveita frelsi til rannsókna og að varðveita rannsóknarumhverfi þar sem rannsóknaniðurstöður eru opnar öllum.
„Það gafst einstakt tækifæri fyrir leiðtoga norrænna háskóla að hittast og ræða málin á Norrænum háskóladögum. Með lykilskilaboðum okkar af ráðstefnunni deilum við sjónarmiðum okkar og hinni norrænu sýn fyrir hið Evrópska þekkingarsvæði, en hún er mikilvæg fyrir norræna háskóla þegar horft er bæði til fjármögnunar rannsókna og menntunar og breytts landslags í evrópsku háskólasamfélagi. Við áttum fundi og viðræður við nokkra af leiðtogum stofnana Evrópusambandsins. Það var afar gagnlegt og við getum byggt á þeim í hinu norræna samhengi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og forseti Norrænu háskólasamtakanna.