Áhrif fæðunnar á geðheilsu
Matur er mannsins megin, segir máltækið. Fæðan er enda okkur öllum nauðsynleg til að lifa. Það sem við borðum veitir okkur þó ekki einungis lífsnauðsynlega orku heldur hefur fæðan veruleg áhrif á líðan og getur ráðið miklu um lífsgæði og heilbrigði eins og vísindamenn Háskóla Íslands hafa sýnt fram á með fjölda rannsókna.
Sumar fæðutegundir dragar úr líkum á að fá ýmsa sjúkdóma á meðan aðrar geta hreinlega aukið líkurnar á þeim. Næring getur líka verið áhrifavaldur í líðan einstaklinga sem glíma við ýmsa sjúkdóma. Nýlegar rannsóknir gefa vísbendingar um að samspil fæðu, þarmaflóru og gegndræpi þarma hafi áhrif á geðheilbrigði.
Birna G. Ásbjörnsdóttur, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hefur ítrekað bent á að örveruflóran í meltingarveginum hafi bein áhrif á heilsufar okkar, andlegt og líkamlegt. „Þessar örverur hjálpa okkur að brjóta niður fæðið og melta það ásamt því að framleiða ákveðin vítamín og fitusýrur sem eru okkur nauðsynleg. Örverurnar framleiða einnig boðefni sem við nýtum okkur,“ segir Birna sem stýrir nú langtímarannsókn á mataræði, þarmaflóru og efnaskiptaþáttum meðal barna og unglinga sem greind eru með geðraskanir.
Öllum börnum og unglingum sem vísað er á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) yfir eins árs tímabil verður boðin þátttaka í þessari rannsókn. Birna segir að samanburðahópar verði tveir, annars vegar alsystkini greindra einstaklinga og svo börn og unglingar valdir af handahófi úr sama póstnúmeri.
Birna er öflugur vísindamaður en hún lauk meistaranámi í næringarlæknisfræði frá Háskólanum í Surrey auk þess að ljúka áföngum í gagnreyndum heilbrigðisvísindum frá Oxford-háskóla.
Vinnur með rannsóknahópi á BUGL
„Upphaflega planið var að rannsaka þarmaflóru í tengslum við geðheilsu en þegar ég var að hefja söfnun gagna kom út sambærileg rannsókn og því varð ég að skipta um efni. Þegar ég fékk síðan tækifæri til að starfa með rannsóknarhópi á BUGL þá leit ég á það sem annað tækifæri til að láta slíka rannsókn á þarmaflóru í tengslum við geðheilsu verða að veruleika,“ segir Birna.
Rannsóknarhópurinn sem Birna starfar með hefur nýlega lokið rannsókn á samspili ADHD og mataræði barna. Hópurinn hafði áhuga á frekari athugunum á þessu sviði með áherslu á örveruflóru meltingarvegar. „Þannig þróaðist hugmyndin að þessari rannsókn, sem byggir á sérþekkingu allra í hópnum,“ segir hún.
Rannsóknir geta stutt við meðferðarúrræði
Birna segir mikla þörf á frekari rannsóknum á tengslum mataræðis, þarmaflóru og geðheilbrigðis enda geti þær stutt við ný meðferðarúrræði hvað varðar geðheilsu barna og unglinga. „Við erum að hefja forrannsóknina núna sem verður síðan hluti af stóru rannsókninni en fyrstu niðurstöður eru væntanlegar síðar á árinu,“ segir hún.
„Vísindalegt og fræðilegt gildi slíkrar rannsóknar er ótvírætt og byggir fyrst og fremst á góðri rannsóknarhönnun en svo á víðfeðmum og nákvæmum gögnum sem hefur ekki verið safnað áður. Rannsóknin býður einnig upp á möguleika á íhlutunarrannsóknum tengdum næringar- og lífstílsmeðferðum í framhaldinu.“
Birna segir að vel skipulagðar og vandaðar rannsóknir, sem framkvæmdar séu af heilindum, geti fært okkur mikilvægar niðurstöður og skýrt heildarmyndina sem við erum alltaf að reyna að sjá fyrir okkur.