Anne-May Janssen er nýr framkvæmdastjóri Aurora
Stjórn Aurora-háskólanetsins hefur tilkynnt að Anne-May Janssen hafi verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Aurora og tekur hún við af Kees Kouwenaar sem gegnt hefur hlutverki framkvæmdastjóra netsins við góðan orðstír undanfarin ár. Anne-May hefur störf á skrifstofu Aurora í Amsterdam þann 1. júlí nk.
Anne-May starfaði um árabil í Brussel við stefnumótun í málefnum háskóla í Evrópu fyrir hönd Netherlands House for Education and Research (Neth-ER), Netherlands Federation of University Medical Centres (NFU) og hollensku stofnunina Nuffic. Í gegnum starf sitt hafði hún meðal annars áhrif á rannsóknaráherslur Horizon 2020, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins. Anne-May hefur frá árinu 2017 stýrt deild sem annast evrópska samvinnu hjá Universities UK International (UUKi) í London.
Nýverið ræddu Kees og Anne-May sýn sína á framtíðarhlutverk háskóla og afrakstur þess spjalls má sjá hér að neðan.
Aurora er öflugt samstarfsnet evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að vera alhliða rannsóknaháskólar með ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Háskóli Íslands hefur verið í forystu í Aurora-háskólanetsins frá stofnun þess árið 2016 og er Jón Atli Benediktsson rektor nú forseti þess. Aurora-samstarfið var útvíkkað árið 2020 þegar Aurora-bandalagið hlaut styrk frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að efla enn frekar samstarf Aurora-háskólanna í kennsluþróun, rannsóknum og nýsköpun.
Háskóli Íslands býður Anne-May hjartanlega velkomna til starfa en hún býr yfir þekkingu og reynslu sem án efa verður Aurora-samstarfinu til framdráttar.