Skip to main content
7. mars 2019

App fyrir sykursjúka sem vaktar ógn vegna augnsjúkdóms og blindu

App fyrir sykursjúka sem vaktar ógn vegna augnsjúkdóms og blindu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Íslenska sprotafyrirtækið RISK hefur hleypt af stokkunum nýju smáforriti eða appi fyrir sykursjúka sem gerir þeim kleift að meta áhættuþætti tengda augnsjúkdómum. Það er til mikils að vinna að veita sykursjúkum stuðning því sykursýki er helsta orsök blindu í heiminum. Appið kallast RetinaRisk en þróunaraðilar segja markmiðið að sem flestir sykursjúkir fái það sem fyrst í hendur. Appið er þróað fyrir farsíma og smátæki. 

Fyrirtækið RISK var stofnað vísindamönnum við Háskóla Íslands og af heilbrigðisstarfsfólki Landspítala sem hefur sameiginlega margra áratuga reynslu af því að fylgjast með augnheilsu sykursjúkra og veita þeim meðferð. Einar Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á augndeild Landspítalans, er í hópi þeirra sem þróuðu appið en Einar er með afkastamestu frumkvöðlum Háskóla Íslands. Þau Arna Guðmundsdóttir, sykursýkislæknir við Landspítalann, Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Jóhann Pétur Malmquist, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild komu einnig að þróun appsins ásamt fleirum. 

„Appið gerir sykursjúkum kleift að fylgjast með áhættu sinni á augnsjúkdómi  í rauntíma og að bregðast sjálfir við þegar sjón þeirra er ógnað. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að gott eftirlit og fyrirbyggjandi meðferð dregur verulegu úr hættu á alvarlegum vandamálum og blindu af völdum sykursýki. Appið hjálpar sjúklingnum að skilja sína eigin áhættu, sína áhættuþætti og hvernig má bregðast við þeim,“ segir Einar Stefánsson en rannsóknir hans hafa margsinnis orðið kveikja að nýsköpun og sprotafyrirtækjum og er RISK í hópi þeirra. 

Einar segir að appið geri sjúklinga virkari, upplýstari og sjálfstæðari þátttakendur í eigin meðferð. Það sé mjög þægilegt i notkun og innihaldi mikinn fróðleik um sjúkdóminn og möguleika sjúklinga til að takast á við hann sjálfir. 

„Appið byggir á reiknilíkani sem dregur saman margvíslegar heilsuuppslýsingar tengdar blóðsykri, blóðþrýstingi, aldri, hversu lengi sjúkdómurinn hefur varað o.s.frv. og gefur þannig mjög nákvæma mynd af stöðu mála hjá hverjum og einum sjúklingi,“ segir Einar sem hefur drjúgan part starfsævinnar unnið að rannsóknum á augnsjúkdómum í sykursýki. 

Einar, sem er mjög kunnur á alþjóðavettvangi og hefur ítrekað verið verðlaunaður fyrir störf sín í þágu vísinda, hvetur alla sem glíma við sykursýki til að hlaða niður appinu en það má gera hér að neðan: 

Appið á Google Play 

Appið á Apple Store

""