Auglýst eftir umsóknum um akademískar nafnbætur
Tekið verður við umsóknum um viðurkenningu á akademísku hæfi til 31. maí 2015 í samræmi við reglur nr. 212/2011 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna Landspítala og veitingu akademískra nafnbóta og samninga Háskóla Íslands við Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Krabbameinsfélags Íslands.
Einnig verður tekið við umsóknum um framlengingu á fyrri nafnbótum, sbr. 6. mgr. 6. gr. reglnanna.
Um meðferð umsókna og mat á hæfi umsækjenda er farið eftir ákvæðum laga um háskóla nr. 63/2006, laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is.
Umsækjendur skulu tilgreina við hvaða deild þeir vilja fá nafnbótina og hvar þeir starfa. Þá skulu umsækjendur láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform. Þá skal taka fram hver átta ritverka sinna umsækjandi telur veigamest og sendir umsækjandi eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.