Skip to main content
7. desember 2020

Aurora Student Champion - Alþjóðleg reynsla fyrir nemendur

Aurora

Nemendum Háskóla Íslands gefst kostur á að taka þátt í verkefninu Aurora Student Champion Scheme sem stúdentaráð Aurora-samstarfsnetsins stendur fyrir. Verkefnið gengur út á að efla tengsl og samstarf milli nemenda í Aurora- og Aurora Alliance skólunum og vinna sameiginlega að markmiðum Aurora.

Aurora er samstarfsnet níu evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að vera alhliða rannsóknaháskólar, með háan áhrifastuðul rannsókna samhliða því að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og fjölbreyttan nemendahóp.

Emily Helga Reise, alþjóðafulltrúi SHÍ og ritari stúdentaráðs Aurora, segir þetta kjörið tækifæri fyrir nemendur HÍ til að taka þátt í starfi netsins, hafa bein áhrif á ákvarðanatöku og tengjast samnemendum í samstarfsskólunum. „Þetta er frábært tækifæri fyrir nemendur að fá alþjóðlega reynslu á meðan þau eru enn í námi við HÍ, sem getur nýst þeim mjög vel bæði í námi og vinnu í framtíðinni, sérstaklega ef þau eru að íhuga að fara erlendis til frekara náms eða starfa,“ segir Emily.

Leitað er eftir metnaðarfullum nemendum sem hafa áhuga á að starfa í alþjóðlegu umhverfi og vilja stuðla að aukinni fjölbreytni, þátttöku og áhrifum nemenda í Aurora. Mikilvægt er að umsækjendur hafi áhuga á sjálfbærni og hvernig megi vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem eru lykiláherslur í starfi Aurora. Um sjálfboðavinnu er að ræða.

Þátttaka stúdenta í starfi Aurora er mjög mikilvæg og áhersla á að nemendur eigi aðkomu að öllum verkefnum Aurora og Aurora Alliance. Stúdentar innan Aurora halda bæði sjálfstæða fundi þar sem þeir deila hugmyndum og verkefnum úr hagsmunabaráttu nemenda innan háskólanna en þeir taka einnig þátt í nær allri vinnu sem á sér stað innan netsins og sitja í vinnuhópum. Forseti stúdentaráðs Aurora á sæti í stjórn Aurora og heldur sýn stúdenta á lofti.

Frestur til að sækja um hefur verið framlengdur til 14. desember. Nánari upplýsingar um verkefnið og umsóknarferlið er að finna á vefsíðu Aurora.
 

Aurora Student Champion