Bættar lífshorfur eftir skurðaðgerð við lungnakrabbameini
Á dögunum birtist í Annals of Translational Medicine vísindagrein rannsóknarhóps á Landspítala og við Háskóla Íslands þar sem lýst er góðum árangri skurðaðgerða við lungnakrabbameini.
Helstu niðurstöður eru þær að lífshorfur sjúklinga hafa batnað umtalsvert á síðustu tveimur áratugum, en í dag má gera ráð fyrir að að í kringum 90% sjúklinga séu á lífi ári eftir aðgerð en áður var hlutfallið 75%. Ástæður fyrir þessari jákvæðu þróun eru sennilega margþættar en þyngst vegur sú staðreynd að sjúklingarnir greinast fyrr og með smærri æxli auk þess sem greining þeirra og mat á úbreiðslu er nákvæmari. Þá sýndi rannsókin að 99% sjúklinga lifa aðgerðina af sem telst mjög góður árangur í alþjóðlegum samanburði.
Rannsóknin náði til 650 sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð á lunga vegna lungnakrabbameins frá 1991 til 2014. Konur voru ívið fleiri (52%) og meðalaldur sjúklinga tæp 70 ár. Í þremur tilfellum af fjórum var framkvæmt svonefnt blaðnám, hjá 13% sjúklinga var gerð minni aðgerð með fleygskurði á æxlinu í blaðinu en allt lungað var fjarlægt í 12% tilvika.
Lungnakrabbamein er annað algengsta krabbameinið á Íslandi hjá báðum kynjum og jafnframt það sem hefur hæstu dánartíðnina. Reykingar eru taldar valda 90% lungnakrabbameina en á Íslandi greinast um 160 tilfelli árlega. Í þriðjungi tilfella er meinið bundið við lungað og er þá oftast hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð.
Rannsóknin náði til 650 sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð á lunga vegna lungnakrabbameins frá 1991 til 2014. Konur voru ívið fleiri (52%) og meðalaldur sjúklinga tæp 70 ár. Í þremur tilfellum af fjórum var framkvæmt svonefnt blaðnám, hjá 13% sjúklinga var gerð minni aðgerð með fleygskurði á æxlinu í blaðinu en allt lungað var fjarlægt í 12% tilvika. Myndin er frá lungnaskurðsaðgerð með brjóstholstækni (VATS) sem nýlega var tekin á Landspítala.
Á síðustu árum hafa ýmsar nýjungar verið teknar upp í meðferð lungnakrabbameins hér á landi. Má þar nefna berkjuómspeglun og jáeindaskanna til að meta útbreiðslu meinsins, en einnig hafa verið tekin í notkun fullkomnari geislatæki sem nýtast gegn æxlum sem ekki er hægt að fjarlægja með skurðaðgerð. Sama á við um ný líftæknilyf sem geta nýst sjúklingum með útbreiddan sjúkóm og má nota með hefðbundnum krabbameinslyfjum. Loks var nýlega byrjað að framkvæma blaðnám með brjóstholssjá (VATS), en þá er allt lungnablaðið fjarlægt í gegnum 4 sm skurð með aðstoð sjónvarpsmyndavélar.
Til að ráða niðurlögum lungnakrabbameins er samt mikilvægast draga úr reykingum í samfélaginu. Hér á landi hefur náðst frábær árangur í reykingavörnum, en í dag reykja aðeins 9% fullorðinna sem er heimsmet sem við deilum með Svíum. Enn ánægjulegri er sú staðreynd að hlutfall grunnskólanema sem reykja er enn lægra og margir bekkir eru reyklausir. Þessi forvarnaárangur mun draga úr tíðni lungnakrabbameins í framtíðinni ásamt því að hafa áhrif á tíðni margra annarra reykingatengdra krabbameina en ekki síður hjarta- og æðasjúkdóma.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Hannes Halldórsson kandídat en Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, stýrði rannsókninni. Aðrir höfundar greinarinnar eru læknarnir Steinn Jónsson prófessor, Magnús Karl Magnússon prófessor, Andri Wilberg Orrason, Guðrún Nína Óskarsdóttir, Ástríður Pétursdóttir og Björn Már Friðriksson.