Blái naglinn styður krabbameinsrannsóknir við HÍ
Jóhannes V. Reynisson, forsvarsmaður félagsins Blái naglinn, sem vinnur að því að efla vitund krabbamein og styðja við krabbameinsrannsóknir, afhenti Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, tæplega 2,3 milljónir króna í vikunni en það er afrakstur landssöfnunar félagsins í tengslum við árlegt átak þess. Blái naglinn vinnur jafnframt að stofnun samfélagssjóðs til þess að efla enn frekar krabbameinsrannsóknir á Íslandi.
Jóhannes kom við á skrifstofu rektors í vikunni og afhenti honum söfnunarféð en hann hefur ásamt samstarfsfólki unnið ötullega að því að vekja athygli á þörfinni á skimun og auknum rannsóknum vegna ristilkrabbameins eða blöðruhálskrabbameins undanfarin ár. Jóhannes stofnaði Bláa naglann árið 2012 eftir að hafa greinst sjálfur með blöðruhálskrabbamein.
Árleg landssöfnun Bláa naglans fór fram um síðustu mánaðamót en þá voru m.a. seldir pennar til styrktar baráttumálum félagsins. Söfnun fjár hefur gengið vel og kom Jóhannes því færandi hendi með 2.287.620 krónur á rektorsskrifstofu sem nýtast munu í krabbameinsrannsóknir innan Háskólans, en skólinn hefur á að skipa afar öflugum hópi vísindamanna á því sviði. Við þetta má bæta að Blái naglinn vinnur einnig að stofnun samfélagssjóðs um grunnrannsóknir á krabbameini í samstarfi við krabbameinslækna, vísindasamfélagið og aðstandendafélög líknarfélaga.
Blái naglinn mun enn fremur á næstunni leita til fyrirtækja og einstaklinga um frekari stuðning við krabbameinsrannsóknir en Jóhannes segir afar brýnt að auka fjármagn til slíkra rannsókna enda snúist það um líf og heilsu landsmanna. Jafnframt bendir hann á að Íslendingar verji umtalsvert lægra fé til krabbameinsrannsókna en nágrannaþjóðir og úr því þurfi að bæta.