Skip to main content
30. júní 2016

Einar ráðinn prófessor og yfirlæknir í lyflækningum

""

Einar Stefán Björnsson hefur verið ráðinn í starf prófessors og yfirlæknis í lyflækningum við Læknadeild Háskóla Íslands og lyflækningasvið Landspítala. Starfið var veitt að fengnu áliti sérstakrar sameiginlegrar valnefndar, sem tilnefnd var af forstjóra Landspítala og rektor HÍ.

Starf prófessors og yfirlæknis í lyflækningum er samhliða starf innan bæði Landspítala og Háskóla Íslands og felur í sér leiðtogahlutverk á sviði kennslu, vísinda og þróunar klínískrar þjónustu. Prófessor og yfirlæknir hefur það hlutverk að tengja saman þessi verkefni þannig að þjónustan geti byggst á gagnreyndri þekkingu en að kennsla og vísindastarf séu einnig byggð á reynslu úr þjónustu. Prófessor og yfirlæknir heyrir bæði undir framkvæmdastjóra lyflækningasviðs á Landspítala og forseta læknadeildar HÍ og vinnur náið með þeim sem og öðrum starfsmönnum og stjórnendum beggja stofnana. Meðal verkefna prófessors og yfirlæknis er að leiða kennslu í lyflækningum innan Læknadeildar og taka þátt í uppbyggingu framhaldsnáms í almennum lyflækningum hér á landi, sem hófst fyrir tæpu ári síðan í samstarfi við Royal College of Physicians í Bretlandi.

Einar Stefán Björnsson hefur víðtæka menntun  í lyflækningum og á að baki glæsilegan vísindaferil. Að loknu kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1989 lauk hann doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla auk þess sem hann hefur sérfræðileyfi í almennum lyflækningum og meltingarsjúkdómum, bæði í Svíþjóð og á Íslandi.  Eftir sérfræðinámið starfaði Einar sem sérfræðingur í meltingarlækningum við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, auk þess sem hann hlaut post doc þjálfun við University of Michigan í Ann Arbor í Bandaríkjunum. Einar hefur verið gestaprófessor við Mayo Clinic Rochester Minnesota og við National Institutes of Health (NIH) í Bandaríkjunum, og starfað sem prófessor við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð. Hann hefur gegnt stöðu prófessors og yfirlæknis í meltingarlækningum við Landspítala og Læknadeild Háskóla Íslands til þessa dags.  

Einar er öflugur vísindamaður en eftir hann liggja yfir 200 vísindagreinar sem birst hafa í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum frá árinu 1994. Tilvitnanir í verk Einars samkvæmt Google Scholar eru u.þ.b. 13.000  og H-Index hans er 66 (í júní 2016). Einar hefur þegið fjölda boða um að halda fyrirlestra um rannsóknir sínar á innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum og var kjörinn heiðursvísindamaður Landspítalans 2016. Einar hefur unnið ötullega að menntun læknanema og að því að virkja unglækna í rannsóknum og hefur  hann leiðbeint sjö doktorsnemum til doktorsprófs. 

""
""