Erlendir nemendur á sumarnámskeiði um miðaldafræði
Stór hópur nemenda frá þremur evrópskum háskólum sótti nýverið vikulangt sumarnámskeið um miðaldafræði hjá alþjóðlegri námsleið í norrænum víkinga- og miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Nemendurnir komu frá Charles University í Prag, Central European University í Vín og Syddansk universitet í Óðinsvém.
Í námskeiðinu var áhersla lögð á að kanna hvernig textar dreifðist um gervalla Evrópu á miðöldum, þar á meðal með þýðingum og aðlögun þeirra, en þetta var mikilvægur þáttur í tilurð samevrópskrar menningar. Aðalfyrirlesari námskeiðsins var Sif Ríkharðsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ og framkvæmdastjóri New Chaucer Society. Aðrir voru Jan Alexander Van Nahl frá HÍ, Baukje Van Der Berg og Éloïse Adde frá CEU, Reka Forrai og Charlotte Epple frá SDU og loks Marie Novotná og Karel Pachovsky frá Prag.
Torfi H. Tulinius, prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ og skipuleggjandi námskeiðsins, segir að námskeiðið hafi heppnast afar vel, ekki síst vegna þess að bakgrunnur nemenda var fjölbreyttur og kennararnir voru sérfræðingar í ólíkum menningarheimum og málsvæðum. Námskeiðið sem heild hafi auðgað skilning bæði nemenda og kennara á sameiginlegri arfleifð Evrópuþjóða. Námskeiðið var haldið með veglegum styrk frá Erasmus Plus áætlun Evrópusambandsins og verða fleiri námskeið haldin á komandi árum, í Prag 2025 og Vín 2026.