Fjölbreytni í kennsluháttum lykilatriði
Ásta Bryndís Schram hefur verið ráðin í nýtt 50% starf kennsluþróunarstjóra á Heilbrigðisvísindasviði. Ásta hóf störf þann 1. febrúar sl.
Ráðning kennsluþróunarstjóra er m.a. hugsuð til þess að hjálpa kennurum við Heilbrigðisvísindasvið að efla kennsluna og kom hún í framhaldi af hvatningu frá rektor Háskólans og Kennslumiðstöð. Helstu þættir starfsins verða þróun kennslu við Heilbrigðisvísindasvið, rannsóknir á kennsluháttum, skipulagning og umsjón með námi í kennslufræðum fyrir nemendur og kennara og þátttaka í starfi kennslumálanefndar sviðsins.
Ásta lauk doktorsprófi í námssálarfræði og kennslufræðum frá Virginia Tech í Bandaríkjunum árið 2015. Í rannsóknum sínum hefur Ásta skoðað upplifun nemenda af þáttum í kennsluumhverfinu sem tengjast áhugahvöt og m.a. staðlað og staðfært spurningalista um það. Ásta hefur kennt á hinum ýmsu skólastigum og einnig unnið stjórnunarstörf við menntastofnanir.
Fyrstu verkefnin í starfi
Eins og fyrr segir hóf Ásta störf í byrjun febrúar. Hennar fyrstu verkefni hafa verið að kynnast starfi og starfsfólki deilda Heilbrigðisvísindasviðs og koma sér og þjónustu sinni á framfæri. „Ég get t.d. orðið að liði við að reyna nýjungar í kennslu. Þetta eru leiðir til að hjálpa nemendum að kryfja námsefnið til mergjar og um leið auka og dýpka það nám sem fram fer,“ segir Ásta. Hún kemur jafnframt til með að hafa fræðsluerindi og bjóða kennurum upp á persónulega ráðgjöf. Ásta mun einnig starfa náið með Kennslumiðstöð og er byrjuð að leggja grunninn að því mikilvæga samstarfi.
Ásta hefur nú þegar komið auga á ýmis tækifæri í þróun kennslu við Heilbrigðisvísindasvið. „Fólk er jákvætt og ég held að við munum eiga gott með að vinna saman að aukinni fjölbreytni í kennsluaðferðum en fjölbreytni er eitt af lykilatriðum þess að halda áhugahvöt nemenda vakandi. Áhugahvöt er jú forsenda þess að nám fari fram. Aukin áhugahvöt eflir athygli og virkni nemandans í náminu og gerir námið dýpra og markvissara“ segir Ásta.
Rannsóknir á kennsluaðferðum
Helstu viðfangsefni Ástu í rannsóknum eru kennsluaðferðir og áhugahvöt og hefur hún þegar komið auga á samstarfsflöt við ýmsa kennara á sviðinu varðandi þau. Ásta segist hafa mikinn áhuga á því að skoða upplifun nemenda af kennsluumhverfinu, til dæmis þá þætti sem hafa áhrif á áhugahvötina og um leið nám og vellíðan. „Dæmi um atriði sem mig langar að rannsaka er valdefling (e. empowerment) og áhugakveikjur í námsumhverfinu ásamt vinnuálagi í námskeiðum. Niðurstöður slíkra rannsókna gefa kennurum mjög hagnýtar upplýsingar um hvernig nemendum gengur að nýta sér kennsluna. Auk þess eru þær leiðbeinandi fyrir kennarann um það hvernig hann eða hún getur mótað kennsluhætti sína,“ segir Ásta. Hún segist jafnframt ekki vera talsmaður einhverrar einnar kennsluaðferðar „því sýnt hefur verið fram á að fjölbreyttir kennsluhættir séu af hinu góða“.
Kennarar við Heilbrigðisvísindasvið eru hvattir til þess að hafa samband við Ástu, hún hefur aðsetur á skrifstofu 302 í Læknagarði, sími 525 5953 og tölvupóstfang astabryndis@hi.is.