Fjölbreytt ráðstefna í hjúkrunarfræði
Nú styttist í ráðstefnu Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands Hjúkrun í fararbroddi sem haldin verður við Háskóla Íslands þann 18. janúar 2018. Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem efst er á baugi í hjúkrunarfræði og tengdum sviðum.
Á ráðstefnunni verða kynnt hátt í 80 verkefni sem spanna allt fræðasvið hjúkrunar, allt frá forvörnum innan heilsugæslunnar yfir í hjúkrun langveikra, hjúkrun aðgerðasjúklinga, hjúkrun aldraðra, geðhjúkrun og hjúkrun barna, unglingra og fjölskyldna þeirra.
Þrjú gestaerindi verða flutt á ráðstefnunni. Brynja Ingadóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ, mun fjalla um þróun fræðslu til sjúklinga á sjúkrahúsum. Dr. Jeroen Hendriks, lektor við Læknadeild University of Adelaide og Roayal Adelaide Hospital í Ástralíu, mun fjalla um samþætta heilbrigðisþjónustu fyrir sjúklinga með hjartsláttaróreglu. Páll Biering, dósent í geðhjúkrun við Hjúkrunarfræðideild HÍ, og Einar Björnsson, verkefnastjóri hjá Hugarafli og stjórnarformaður Geðhjálpar, fjalla um þróun kennsluefnis í geðhjúkrun í samstarfi við notendur geðheilbrigðisþjónustunnar.
Boðið verður upp á þrjár spennandi vinnusmiðjur sem fjalla um samþættingu í geðhjúkrun, fagmennsku, öryggi og teymisvinnu og ábyrga kynhegðun unglinga.
Á ráðstefnunni verða veittar tvær viðurkenningar úr minningarsjóði dr. Guðrúnar Marteinsdóttur til hjúkrunarfræðinema sem skarað hafa fram úr á sviði heilsugæslu- og fjölskylduhjúkrunar í BS-námi. Ráðstefnan er tileinkuð minningu dr. Guðrúnar Marteinsdóttur sem var dósent við námsbraut í hjúkrunarfræði og frumkvöðull meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga á sviði heilsugæslu- og fjölskylduhjúkrunar.
Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá ráðstefnunnar og ráðstefnurit hér: https://www.hi.is/vidburdir/hjukrun_i_fararbroddi