Fjölbreyttar rannsóknir á ráðstefnu doktorsnema
Ráðstefna doktorsnema á Heilbrigðisvísindasviði fór fram föstudaginn 24. mars í Skásal og Hringsal Landspítala og í Eirbergi.
Á dagskrá ráðstefnunnar voru 56 fjölbreyttar rannsóknir sem kynntar voru í 11 málstofum. Á meðal efnisflokka á dagskrá voru fæðing og börn, erfðafræði, krabbamein, langvarandi verkir, lyfjavísindi, næringarfræði, sameindalíffræði og sjúkraþjálfun. Dagskráin bar þess merki að mikil gróska er í rannsóknum doktorsnema á Heilbrigðisvísindasviði. Ágrip allra rannsókna sem kynntar voru á ráðstefnunni má skoða í rafrænni ágripabók.
Doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs stóð fyrir hádegismálstofu fyrir leiðbeinendur doktorsnema. Málstofan fjallaði um lengd doktorsnáms og hvort það sé raunhæft að gera kröfur um að nemendur ljúki því á þremur árum. Málstofan var vel sótt og það sköpuðust líflegar og skemmtilegar umræður um málefnið.
Ráðstefna er vettvangur fyrir doktorsnema á Heilbrigðisvísindasviði til þess að hittast og kynna rannsóknir sínar. Ráðstefnan fer fram á ensku vegna fjölda alþjóðlegra doktorsnema við sviðið og til þess að veita íslensku nemendunum þjálfun í að kynna rannsóknir sínar á ensku.