Fjórar efnilegar vísindakonur verðlaunaðar
Fjórar efnilegar vísindakonur voru verðlaunaðar fyrir rannsóknarverkefni sín á 19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Háskólatorgi þann 4. janúar að viðstöddum Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala og öðrum ráðstefnugestum. Kristín Ingólfsdóttir, formaður undirbúningsnefndar ráðstefnunnar og prófessor í lyfjafræði, stjórnaði athöfninni.
Kristín Elísabet Allison, doktorsnemi í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar sem Félag íslenskra lífeðlisfræðinga veitir efnilegum vísindamanni fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina. Kristín hlaut verðlaunin fyrir verkefnin „Pontin og Reptin í taugakerfi ávaxtaflugunnar“ og „Hver flytur sítratið? Tjáning SLC13A5 í mannsheilanum og tengsl við alvarleg flog í börnum“. Yrsa Sverrisdóttir, formaður félagsins afhenti verðlaunin.
Priyanka Sahariah, nýdoktor við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði til efnilegs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, en það ber heitið „Antibacterial efficacy of chitosan derivatives towards planktonic cells and bacterial biofilm“. Kristín Ólafsdóttir, formaður valnefndar og dósent í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild, afhenti verðlaunin.
Steinunn Arnars Ólafsdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar fyrir verkefnið „Þróun á ActivABLES; gangvirkur tæknibúnaður til þjálfunar fyrir einstaklinga eftir heilaslag sem búa í heimahúsum“. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhenti verðlaunin.
Þórhildur Halldórsdóttir, nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefnið „Polygenic Risk: Predicting Depressive Symptoms in Clinical and Epidemiological Cohorts of Youth“. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, afhenti verðlaunin fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Háskóli Íslands óskar þeim hjartanlega til hamingju með viðurkenningarnar.
Myndir Kristins Ingvarssonar frá ráðstefnunni má nálgast á myndasafni Háskóla Íslands.