Frá sál til sálar endurútgefin
Út er komin önnur og endurskoðuð útgáfa af bók Jörgens L. Pind, prófessors í sálfræði við Háskóla Íslands, „Frá sál til sálar: Ævi og verk Guðmundar Finnbogasonar sálfræðings“.
Í bókinni er sögð saga bláfátæks íslensks sveitapilts sem braust til mennta um aldamótin 1900, lauk meistaraprófi í heimspeki með sálfræði sem aðalgrein við Hafnarháskóla árið 1901 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1911. Doktorsritgerðin fjallaði um það fyrirbæri sem Guðmundur kallaði „samúðarskilning“ en það var einkar frumleg hugmynd hans um þátt eftirlíkingar í sálarlífi fólks.
Guðmundur var ráðunautur íslenskra stjórnvalda í menntamálum á árunum 1901–1905 og síðar prófessor í hagnýtri sálfræði við Háskóla Íslands árin 1918–1924, fyrsti prófessor í sálfræði við skólann. Guðmundur var brautryðjandi íslenskrar sálfræði á fyrri hluta 20. aldar.
Í ritdómi um fyrri útgáfu bókarinnar skrifaði Atli Harðarson heimspekingur meðal annars:
„Bókin er bráðskemmtileg aflestrar og segir ekki aðeins sögu Guðmundar og fólks sem hann umgekkst heldur líka sögu sálfræði og skólamála á mjög viðburðaríku tímabili þegar sálfræðin var að verða til sem sjálfstæð fræðigrein og Íslendingar að móta sína barnaskólahefð. Frá sál til sálar er ólík öðrum íslenskum ævisögum sem ég hef lesið að því leyti hvað sögumaður hefur vítt sjónarhorn og hvernig hann tengir hugsun Guðmundar við alþjóðlegar hræringar í vísindum og menningarlífi. Það er eins og Jörgen gerþekki ekki aðeins manninn sem hann skrifar um heldur líka þann heim sem hann lifði í ... Hugmyndum og kenningum á sviði heimspeki og vísinda sem höfðu áhrif á Guðmund er afar vel lýst, á Ijósu máli svo allir mega skilja, en þó án þess að einfalda hlutina um of.“
Útgefandi er Háskólaútgáfan.