Fyrst Íslendinga sem stýrir norrænum samtökum um verki
Sigríður Zoëga, lektor við Hjúkrunarfræðideild og sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með verki á Landspítala, hefur tekið við formennsku í Scandinavian Association for the Study of Pain (SASP). Sigríður er fyrsti Íslendingurinn til að gegna formennsku í samtökunum og jafnframt fyrsti hjúkrunarfræðingurinn.
Verkir eru algengir meðal almennings bæði í samfélaginu og á sjúkrastofnunum og hafa neikvæð áhrif á líðan og heilsutengd lífsgæði fólks. Þrátt fyrir margvísleg úrræði og aukna þekkingu á verkjum og verkjameðferð er engu að síður fjöldi fólks með verki sem erfiðlega gengur að meðhöndla. Frekari rannsóknir á verkjum og verkjameðferð þykja því mikilvægar.
SASP-samtökin eru þverfagleg og miða að því að efla og deila þekkingu og niðurstöðum vísindarannsókna á verkjameðferð. Hlutverk þeirra er skapa samvinnuvettvang milli rannsakenda á Norðurlöndum til að hvetja til bæði grunn- og klínískra rannsókna á verkjum og meðferð verkja. Samtökin standa fyrir árlegu vísindaþingi og hófu nýverið að bjóða doktorsnemum upp á námskeið í verkjameðferð. Þingið fór fram hér á landi dagana 25. - 27. maí sl.
Sigríður er sem fyrr segir lektor við Hjúkrunarfræðideild ásamt því að sinna störfum við Landspítala. Hún lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2014 en rannsóknir hennar snúa að mati og meðferð einkenna, einkum verkja, og hvernig bæta má gæði verkjameðferðar.