Góður árangur aðgerða við lungnakrabbameini aldraðra
Á dögunum birtist í tímaritinu Interactive CardioVascular and Thoracic Surgery vísindagrein rannsóknarhóps af Landspítala og Háskóla Íslands þar sem lýst er árangri skurðaðgerða við lungnakrabbameini hjá öldruðum. Í ljós kom að árangur aðgerðanna er síst minni en hjá yngra fólki.
Eldri sjúklingum fjölgar hratt og í dag eru um 6% Íslendinga eldri en 75 ára en eftir 20 ár verður hlutfallið næstum helmingi hærra. Þess vegna er afar brýnt að átta sig á árangri skurðaðgerða hjá þessum ört stækkandi hópi sjúklinga og kanna hvernig þeim reiðir af. Rannsóknin staðfestir að bæði snemmkominn og langtímaárangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini er góður hjá öldruðum, sem eru jákvæð og mikilvæg skilaboð til sjúklinganna sjálfra og aðstandenda þeirra, en ekki síður heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir þessum sjúklingum.
Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið á Íslandi hjá báðum kynjum og það sem hefur hæstu dánartíðnina. Reykingar eru taldar valda 90 af hundraði lungnakrabbameina en á Íslandi greinast um 160 tilfelli árlega. Af þeim sem greinast eru um fjórðungur eldri en 75 ára. Skurðaðgerð er í dag eina vel rannsakaða lækningin við lungnakrabbameini en þá er hluti lungans og í sumum tilvikum allt lungað fjarlægt. Mjög hefur skort á rannsóknir á árangri þessara aðgerða hjá öldruðum.
Við rannsóknina var stuðst við gögn frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands en á 24 ára tímabili (1991-2014) greindust tæplega 800 einstaklingar, 75 ára og eldri, með lungnakrabbamein á Íslandi. Af þeim gengust 18 af hundraði undir skurðaðgerð, en hlutfall þeirra sem voru skornir var eins og búast mátti við lægra en hjá yngri sjúklingum þar sem það var 32 af hundraði. Algengasta ástæða þess að ekki var hægt að grípa til skurðaðgerðar var sú að meinið hafði dreift sér (hjá 64 prósent sjúklinganna) en einnig hafði skert lungnastarfsemi vegna lungnaþembu og alvarlegir hjartasjúkdómar áhrif.
Þegar litið var sérstaklega á þá eldri sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð kom í ljós að lífshorfur þeirra voru ekki marktækt síðri en horfur einstaklinga sem voru yngri en 75 ára. Það sama átti við um tíðni fylgikvilla og hlutfall sjúklinga sem létust innan 30 daga. Í samanburði við erlendar rannsóknir er árangur þessara skurðaðgerða hér á landi mjög góður og 98 af hundraði sjúklinga lifðu aðgerðina sem er með því besta sem þekkist.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Kristján Baldvinsson, læknir á Landspítala, en Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala, stýrði rannsókninni. Aðrir höfundar greinarinnar eru læknarnir Guðrún Nína Óskarsdóttir, Andri Wilberg Orrason, Húnbogi Þorsteinsson, Martin Ingi Sigurðsson og Steinn Jónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, auk Hannesar Halldórssonar læknanema. Hér má sjá greinina sjálfa.