Góður árangur af blaðnámsaðgerðum við lungnakrabbameini
Nær allir sjúklingar sem gengust undir svokallaða blaðnámsaðgerð við lungnakrabbameini á Landspítala á 24 ára tímabili voru lifandi 30 dögum síðar og reyndist dánarhlutfallið með því lægsta sem þekkist. Þetta sýnir ný rannsókn hóps lækna við Landspítala og Háskóla Íslands en sagt er frá henni í vísindagrein sem birt var á dögunum.
Greinin ber yfirskriftina „Lobectomy for non-small cell lung carcinoma: a nationwide study of short- and long-term survival“ og birtist í Acta Oncologica.
Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum á Íslandi og það krabbamein sem leggur flesta að velli. Árlega greinast um 160 sjúklingar með lungnakrabbamein en Ísland hefur þá sérstöðu að hér á landi greinast fleiri konur en karlar með sjúkdóminn. Er það rakið til mikilla reykinga íslenskra kvenna upp úr síðari heimsstyrjöld en konur tóku þá að reykja meira en stallsystur þeirra annars staðar á Vesturlöndum. Tóbaksvarnir ættu því ekki síður að beinast að íslenskum konum en körlum því rekja má 90% lungnakrabbameinstilvika beint til reykingar.
Skjót greining er einnig mikilvæg þannig að sjúkdómurinn hafi ekki náð að dreifa sér í eitla og önnur líffæri. Þetta á við um þriðjung sjúklinga en þar getur skurðaðgerð komið til greina og meinið er þá fjarlægt. Er þá í 80% tilfella beitt svokölluðu blaðnámi (lobectomy) þar sem lungnablaðið er fjarlægt í heild sinni ásamt eitlum í kring. Á Íslandi eru þessar aðgerðir aðeins framkvæmdar á Landspítala en þær taka um tvær klukkustundir og liggja sjúklingarnir inni í nokkra daga eftir aðgerðina.
Í rannsókninni, sem náði til 489 íslenskra sjúklinga með skurðtækt lungnakrabbamein á 24 ára tímabili (1991-2014), kom í ljós að 99,6% sjúklinga voru lifandi 30 dögum eftir aðgerð sem er með lægsta dánarhlutfalli sem lýst hefur verið eftir slíka aðgerð á heimsvísu. Langtímalifun var einnig góð, sérstaklega fyrir sjúklinga með lungnakrabbamein sem bundið var við lungað.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Guðrún Nína Óskarsdóttir en hún leggur stund á sérnám í lungnalækningum í Lundi í Svíþjóð. Rannsóknin er ein af greinum í doktorsverkefni hennar við Læknadeild Háskóla Íslands og er leiðbeinandi hennar Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir við Landspítala.