Greiningar fyrir tilviljun hafa betri horfur
Sjúklingar sem greinast fyrir tilviljun með lungnakrabbamein við tölvusneiðmyndun hafa mun betri lífshorfur en þeir sjúklingar sem greinast vegna einkenna eins og brjóstverkja, blóðhósta eða endurtekinna lungnasýkinga. Frá þessu er greint í nýrri vísindagrein rannsóknarhóps af Landspítala og Háskóla Íslands sem birtist á dögunum í European Respiratory Journal Open Research. Í greininni er lýst tíðni lungnakrabbameina sem greind eru fyrir tilviljun, þ.e. við myndrannsóknir hjá sjúklingum sem ekki hafa einkenni sjúkdómsins. Í ljós kemur að um þriðjungur þeirra sem gangast undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins er greindur fyrir tilviljun. Niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi þess að greina lungnakrabbamein snemma enda þótt mikilvægasta forvörnin gegn lungnakrabbameini sé að koma í veg fyrir og uppræta reykingar.
Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið á Íslandi hjá báðum kynjum og það sem dregur flesta til dauða. Reykingar eru taldar valda 90 af hundraði lungnakrabbameina en á Íslandi greinast um 160 tilfelli árlega. Einkenni lungnakrabbameins geta verið lúmsk sem getur valdið töluverðri töf á greiningu. Stundum geta lungnakrabbamein hins vegar greinst án þess að einkenni komi fram en horfur þeirra sjúklinga, sem svo háttar um, hafa ekki verið rannsakaðar áður hér á landi.
Rannsókn hópsins náði til allra sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins á 20 ára tímabili, 1990 – 2010. Samtals var um að ræða 508 tilfelli og þar af voru 174 greindir fyrir tilviljun, þ.e. án einkenna, eða 34% hópsins. Af þeim hópi greindust flest tilvikin í kjölfar hefðbundinnar röntgenmyndatöku af lungum (75%) eða tölvusneiðmyndar af brjóstholi (24%). Oftast var um uppvinnslu vegna hjartasjúkdóma að ræða (30%) en einnig voru þessar myndrannsóknir hluti af undirbúningi fyrir skurðaðgerð (14%) og stigunarannsóknum annarra krabbameina (13%) eða eftir áverka á brjóstholi (10%).
Í ljós kom að á umræddu 20 ára tímabili breyttist hlutfall tilviljunargreindra lungnakrabbameinstilvika af heildarfjölda slíkra tilvika lítið enda þótt aðgengi að myndrannsóknum hafi aukist verulega á þessu tímabili. Þó jókst hlutfall tilviljanagreindra æxla sem greindust á tölvusneiðmynd um rúm 15% á rannsóknartímabilinu. Æxlin sem sem greindust fyrir tilviljun á tölvusneiðmynd reyndust næstum 2 sm minni en hjá sjúklingum með einkenni og höfðu sjaldnar dreift sér til annarra líffæra. Loks reyndust fimm ára lífshorfur þeirra sem greindust fyrir tilviljun bestar hjá þeim sem greindust á tölvusneiðmynd, eða 68% samanborið við 57% hjá þeim sem greindust með krabbameinið á lungnamynd og 41% hjá þeim sem höfðu einkenni lungnakrabbameins.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Andri Wilberg Orrason, sérnámslæknir á Landspítala, en Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala, stýrði rannsókninni. Aðrir höfundar greinarinnar eru læknarnir Kristján Baldvinsson, Húnbogi Þorsteinsson, Martin Ingi Sigurðsson og Steinn Jónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.