Skip to main content
9. september 2022

Háskólinn flaggar Grænfánanum

Háskólinn flaggar Grænfánanum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands tóku í vikunni við Grænfánanum frá Landvernd á sérstökum grænum nýnemadegi sem fram fór bæði á Háskólatorgi og við Aðalbygginu. Verkefnið er unnið að frumkvæði nemenda skólans.

Háskóli Íslands hefur flaggað Grænfánanum frá árinu 2020 en verkefnið er á vegum Landverndar og hefur það markmið að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla í landinu. Fáninn var afhentur í kjölfar úttektar Landverndar á þeim markmiðum sem Grænfánanefnd skólans hefur sett sér en Stúdentaráð og umhverfis- og samgöngunefnd ráðsins gegna lykilhluverki í verkefninu í samstarfi við starfsmann sjálfbærni- og umhverfismála við Háskóla Íslands.

Grænfáninn var afhentur við athöfn á Háskólatorgi og við það tilefni flutti Dagmar Óladóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs, ávarp þar sem hún þakkaði nefndarmönnum síðasta árs fyrir þeirra vinnu og skýra markmiðasetningu í verkefninu. „Ég stend hér í dag sem fulltrúi nemenda og finnst þetta því kjörið tækifæri til þess að minna okkur á hvað okkar rödd er mikilvæg. Þeim árangri sem hefur hingað til verið náð er að miklu leyti að þakka þeim nemendum og starfsfólki skólans sem hafa látið í sér heyra og beitt þrýstingi á réttu stöðunum,“ sagði Dagmar og benti á að fyrir m.a. tilstilli nemenda væru umhverfis- og sjálfbærnimál meðal megináherslna í nýrri stefnu Háskóla Íslands, HÍ26.

Að lokinni afhendingu Grænfánans var hann dreginn að húni við Aðalbyggingu og í kjölfarið tóku bæði rektor, stúdentar og starfsfólk þátt í að gróðursetja plöntur á lóðinni norðan við Aðalbyggingu sem skref í átt að enn grænni háskóla. 

Myndir Kristins Ingvarsson frá grænum nýnemadegi má sjá hér að neðan.
 

Fulltrúar Stúdentaráðs og umhverfis- og samgöngunefndar ráðsins draga Grænfánann að húni við Aðalbyggingu.
Dagmar Óladóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentráðs, ávarpar gesti á Háskólatorgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpar gesti á Háskólatorgi.
Gestir á Háskólatorgi.
Fulltrúar Landverndar, Háskóla Íslands og Stúdentaráðs með Grænfánann.
Háskólkórinn söng á grænum nýnemadegi og kynnti um leið starf sitt fyrir áhugasömu kórfólki.
Fulltrúar Stúdentaráðs og umhverfis- og samgöngunefndar ráðsins draga Grænfánann að húni við Aðalbyggingu.
Grænfáninn og fáni Háskóla Íslands blakta við Aðalbyggingu.
Nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands gróðursetja plöntur á lóðinni milli Aðalbyggingar og Þjóðminjasafnsins.
Nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands gróðursetja plöntur á lóðinni milli Aðalbyggingar og Þjóðminjasafnsins.