Heilsa háskólasamfélagsins í brennidepli
Pallborðsumræður um geðheilbrigðismál, blóðþrýstingsmælingar og kennsla í skyndihjálp er meðal þess sem bíður gesta á Heilsudegi háskólans á Háskólatorgi fimmtudaginn 18. janúar. Heilsudagurinn er opinn öllum og stendur frá kl. 11:30 – 14:00.
Dagskráin hefst kl. 11:30 með pallborðsumræðum um geðheilsu og úrræði háskólanemenda á Litla torgi.
Stúdentaráð Háskóla Íslands og Landssamtök Íslenskra Stúdenta (LÍS) hafa undanfarið beitt kröftum sínum að geðheilbrigði íslenskra háskólanemenda og krafist úrbóta í úrræðum. Þá hefur sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs einnig tekið geðheilbrigði nemenda til umfjöllunar og meðal annars kannað andlega líðan nemenda við sviðið.
Mælendur í pallborði verða:
- Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður LÍS
- Bjarni Halldór Janusson, Stúdentaráðsliði
- Gunnar Hrafn Birgisson, forstöðumaður sálfræðiráðgjafar háskólanema
- Ingibjörg Sveinsdóttir, doktor í klínískri sálfræði og starfsmaður Velferðarráðuneytis
- Katrín Sverrisdóttir, starfandi sálfræðingur við Háskóla Íslands
Fundarstjóri verður Elísabet Brynjarsdóttir, formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs.
Nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands er einnig boðið að sækja heilsutengda þjónustu og fræðslu á Háskólatorgi á milli kl. 12:30 og 14.
Á Háskólatorgi verða eftirfarandi stöðvar:
- Blóðsykurs- og blóðþrýstingsmælingar á vegum Hjúkrunarfræðideildar
- Fróðleikur um tannheilsu og tannlæknaþjónustu Háskólans
- Kynning á Sálfræðiráðgjöf Háskólans
- Blóðbankinn kynnir starfsemi sína og Blóðbankabíllinn verður fyrir utan Odda
- Hugrún geðfræðslufélag fjallar um geðheilbrigði
- Bjargráður sýnir réttu tökin í skyndihjálp
- Kynfræðsla í boði Ástráðs, kynfræðslufélags Læknanema
- Náms- og starfsráðgjöf HÍ kynnir starfsemi sína
Sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs stendur að skipulagningu Heilsudagsins með aðkomu nemenda úr öllum deildum sviðsins.