Heilsa og hollusta í fyrirrúmi á Heilsudegi
Flestir eru sammála því að góð heilsa er dýrmæt hverjum manni. Heilsa og hollusta verða í forgrunni á Háskólatorgi 19. mars en þá mun sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs (SHÍ) bjóða nemendum og starfsfólki skólans á Heilsudaginn. Mikið verður um dýrðir og á dagskrá eru pallborðsumræður, kynningar og fyrirlestrar sem sýna heilbrigðisvísindi á lifandi hátt.
„Umdeildar staðhæfingar um heilsu“ er yfirskrift pallborðsumræðna í Stúdentakjallaranum en þar munu nokkrir landskunnir sérfræðingar ræða ýmis mál sem hafa farið hátt undanfarið. Má þar nefna áhrif erfðabreyttra matvæla á líkamann, sætuefnið aspartame og lágkolvetnamataræði sem notið hefur mikilla vinsælda á Vesturlöndum um þónokkurt skeið. Þá mun Karl Andersen, hjartasérfræðingur og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, flytja erindi um lífsstílstengda sjúkdóma.
Á Háskólatorgi fer fram kynning á námi og starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs. Mikil verkleg kennsla er við sviðið og fá framhaldsnemendur m.a. þjálfun hjá Sálfræðiráðgjöf háskólanema, Tannlæknaþjónustunni og á Heilsutorgi undir dyggri leiðsögn kennara við skólann. Þessi þjónusta er öll opin nemendum Háskóla Íslands.
Fulltrúar frá nemendafélögum kynna til sögunnar ýmis spennandi samfélagsleg verkefni, s.s. Lýðheilsufélag læknanema sem stendur fyrir hinum sívinsæla bangsaspítala, Ástráð, forvarnarstarf læknanema gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum, Bjargráð, félag læknanema sem beita sér fyrir því að efla skyndihjálparkunnáttu, Skjöld, félag hjúkrunarfræðinema sem vinnur að forvörnum og fræðslu fyrir ungt fólk og Hlíf, áhugafélag hjúkrunarnema um skaðaminnkun og jaðarsetta hópa.
Efnt verður til ljósmyndasamkeppni á Instagram í tilefni af Mottumars – átaki Krabbameinsfélags Íslands í baráttunni gegn krabbameini í karlmönnum. Blóðbankabíllinn verður á staðnum og allir aflögufærir eru hvattir til að gefa blóð og styrkja um leið mikilvægt málefni. Spítalinn okkar – landsamtök um uppbyggingu húsnæðis Landspítala verða enn fremur með kynningu á sinni starfsemi.
Heilbrigði og velferð í víðum skilningi
Að sögn Margrétar Unnarsdóttur, formanns sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs, kviknaði hugmyndin að Heilsudeginum í spjalli fyrir allnokkru. „Við sem sitjum í sviðsráðinu í ár vorum mjög hrifin af hugmyndinni og ákváðum að hrinda henni í framkvæmd.“ Hún segir að markmiðið með deginum sé að kynna heilbrigði og velferð í víðum skilningi og gefa fólki um leið tækifæri til að fræðast og spyrja um heilsutengd málefni. „Þetta er ekki síður gott tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk háskólans til að kynna sér Heilbrigðisvísindasvið og þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram,“ segir Margrét sem er ásamt samstarfsfólki að ljúka undirbúningi fyrir daginn, en hann hefur staðið yfir vikum saman.
Þetta er í fyrsta skipti sem Heilsudagurinn er haldinn en stefnt er að því að hann verði árlegur viðburður. Heilsudagurinn fer sem fyrr segir fram á Háskólatorgi þann 19. mars og hefst dagskráin kl. 12 og lýkur kl. 16.