Skip to main content
28. ágúst 2017

Hjálpar bændum að auka verðmæti afurða

BS-verkefni Rúnars Tryggvasonar í matvælafræði fólst í því að þróa og framleiða hrápylsur úr ærkjöti til þess að auka verðmæti þess. Framleiðsla á pylsunum er að hefjast. 

Uppsöfnun ærkjöts og lágt afurðaverð er vandamál sem bændur hafa þurft að glíma við. Markmið verkefnisins var að þróa hrápylsur úr ærkjöti sem framleiða mætti á einfaldan hátt beint frá býli. Í verkefninu fólst bæði þróun vörunnar og gæðaeftirlit. Niðurstöður sýndu að bændur geta framleitt pylsurnar við einfaldar aðstæður á öruggan hátt.

Afraksturinn verkefnisins er skýr verkferill sem bændur geta nýtt sér. Framleiðsla á hrápylsum eftir verkferli Rúnars er til dæmis að hefjast á sauðfjárbýlinu Borgarfelli í Skaftártungu.

Rúnar lauk BS-námi í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild í vor. Hann stundar nú MS-nám í sömu grein.

Rúnar vann verkefnið í samstarfi við Guðjón Þorkelsson, sérfræðing hjá Matís og forseta Matvæla- og næringarfræðideildar og Óla Þór Hilmarsson, ráðgjafa hjá Matís.

Skoða viðtal við Rúnar um verkefnið í Bændablaðinu.