Hjálpar börnum með kvíðaraskanir
Kvíði er algengur meðal barna og unglinga á Íslandi og vilja sumir meina að þessi vandi fari vaxandi, m.a. samfara aukinni útlitsdýrkun og mikilli notkun snjalltækja. Kvíði hefur fjölmargar birtingarmyndir en allar hafa þær í för með sér vanlíðan og skerta færni ungmennis til að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Í sumum tilvikum hætta börn jafnvel í skóla og allri þátttöku í skipulögðu félags- og íþóttastarfi vegna kvíðans og raskana sem henni geta fylgt. Það er því til gríðarlega mikils að vinna að bæta líðan þeirra ungmenna sem glíma við kvíðaraskanir og gera þeim kleift að lifa sem eðlilegustu lífi.
Guðmundur Skarphéðinsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands, vinnur nú að rannsókn á matstæki fyrir kvíðaraskanir hjá börnum þar sem áherslan er á að meta þýðingu þeirra og réttmæti en hugmyndin er að hjálpa börnum að sigrast á kvíða.
Mikilvægt að notast við bestu matstækin
„Markmiðið með rannsókninni er að staðfæra nýleg erlend matstæki sem notuð eru til að greina og meta alvarleika áráttu- og þráhyggjuröskunar og kvíðaraskana hjá börnum og unglingum. Þessi tæki eru ekki til staðar hér á landi. Um að ræða stöðluð greiningarviðtöl ásamt viðtölum og spurningalista sem meta alvarleika einkenna áráttu- og þráhyggjuröskunar, kvíðaraskana og skyldra raskana,“ segir Guðmundur.
Áráttu- og þráhyggjuröskun sem Guðmundur nefnir sérstaklega getur fylgt kvíða en birtingarmyndin er þá gjarnan sú að barnið endurtekur ákveðna hegðun eins og að athuga sífellt hvort allt sé í lagi eða þvær sér óhóflega mikið og oft, sem er þá markviss hegðun til að bægja kvíðafullum þráhyggjuhugsunum frá.
Guðmundur segir mikilvægt að notast við nýjustu og bestu matstækin hér á landi til að beina börnum í bestu hugsanlegu meðferð og meta meðferðarárangur á sem bestan hátt. Hann hefur reynslu af notkun slíkra matstækja frá Noregi þar sem hann starfaði áður við rannsóknir og sem klínískur barnasálfræðingur. Hann hefur að auki unnið sem sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítala.
Guðmundur kveðst hafa lengi brunnið fyrir þessu viðfangsefni eftir góða reynslu af því að nota matstækin í Noregi. „Mér þótti mjög miður að þessi matstæki væru ekki til staðar hér á landi og því ákvað ég að velja þetta viðfangsefni í rannsókninni. Ég og samstarfsmenn mínir erum enn að staðfæra og prófa þessi matstæki og við vonumst til að geta birt niðurstöður innan skamms og tekið í notkun sem allra fyrst.“
Tíðni raskana er há hérlendis
„Algengi kvíðaraskana er á bilinu 15 til 20 prósent hérlendis ef horft er til allra barna og unglinga,“ segir Guðmundur en samkvæmt honum geta þær haft í för með sér mikla starfsskerðingu og geta til viðbótar aukið líkur á ýmsum vandkvæðum seinna á lífsleiðinni, svo sem þunglyndi, áfengis- og vímuefnanotkun, svefnvandamálum og brottfalli úr skóla eða vinnu.
„Samkvæmt erlendum rannsóknum verða kvíðaraskanir fyrst algengar fyrir kynþroska. Það vinnst mikið með því að leggja áherslu á árangursríkt og gagnreynt mat og meðferð fyrir þennan aldurshóp áður en vandinn eykst og verður fjölþættari.“
Guðmundur segir að þessi rannsókn hafi þá kosti fyrir samfélagið að veita aðgang að nýjustu og bestu matstækjunum sem völ er á og stytti þannig leiðina að úrlausnum fyrir þennan hóp ungmenna. Með henni verði greining og mat á alvarleika umræddra raskana nákvæmari. Með rannsóknin verði aukinheldur hægt að fá eins nákvæmt mat á einkennamynd og alvarleika áður en meðferð hefst og eining á meðan á henni stendur.
„Matstækið gefur upplýsingar um hvenær nauðsynlegt er að halda áfram meðferð, hvenær skuli hætta eða skipta um meðferð. Við vonum að þessi vinna leiði til þess að hægt verði að vísa börnum og unglingum í nákvæmlega þau úrræði sem þau þurfa á að halda þannig að líkurnar aukist á meðferðarsvörun og aukningu lífsgæða til skemmri eða lengri tíma,“ segir Guðmundur.