Hlakkar til að vinna að aukinni alþjóðavæðingu háskólasamfélagsins
Alma Ágústsdóttir er nýr alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands en hún tekur við af Emily Helgu Reise. Þetta er í þriðja sinn sem ráðið er í stöðuna en ráðið er til eins árs í senn. Alþjóðafulltrúi hefur yfirumsjón með þjónustu skrifstofu Stúdentaráðs við erlenda nemendur, gætir hagsmuna þeirra og auðveldar þeim að gerast virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu. Fulltrúinn er jafnframt málsvari erlendra nema við Háskóla Íslands og fulltrúi Stúdentaráðs í Aurora-samstarfinu.
„Mér finnst þörf á að gera háskólasamfélagið aðgengilegra fyrir alþjóðlega nemendur. Nemendur hvaðanæva úr heiminum stunda nám við skólann bæði sem skiptinemar og nemendur í fullu námi og það þarf að halda betur utan um þennan hóp, bæði hvað varðar námið og félagslega þáttinn,” segir Alma. Hún ætlar að leggja áherslu á að gera erlendum nemendum auðveldara að aðlagast og verða hluti af háskólasamfélaginu og íslensku samfélagi.
Háskólinn verður að taka mið af breytingum í samfélaginu
„Háskóli Íslands er þekktur á alþjóðavísu sem framsækin menntastofnun sem býður upp á fjölbreytilega menntun og höfðar því skiljanlega til fjölbreytts nemendahóps. Með aukinni hnattvæðingu breytast kröfur samfélagsins og aukin alþjóðavæðing Háskólans er nauðsynleg þróun sem ég hlakka til að vinna að,” segir Alma.
Hún segir Háskóla Íslands vera flaggskip æðri menntunar á Íslandi og hafi þjónað Íslendingum vel í 110 ár. Eftir því sem íslenskt samfélag breytist, þróast og verður alþjóðlegra s.s. með tilkomu innflytjenda og flóttafólks hefur skilgreiningin á því hvað felst í að vera Íslendingur tekið miklum breytingum. Hún segir því mikilvægt að Háskólinn, sem hefur alla tíð verið virkur í alþjóðlegu samstarfi, taki samsvarandi breytingum. „Ég vil sjá þá þróun á næstu árum að mögulegt verði að stunda sem fjölbreyttast nám við skólann óháð því hversu gott vald þú hefur á íslensku.”
Aurora veitir nemendum tækifæri til að hafa áhrif
Alþjóðafulltrúi SHÍ er afar virkur í Aurora-samstarfinu og nú styttist í skiptafund stjórnar Aurora og því munu fylgja ný og spennandi verkefni. „21. öldin hefur markast af tæknibreytingum sem kalla á samfélagslegar breytingar. Þar að auki gerði heimsfaraldurinn það að verkum að kennsluhættir umturnuðust vegna aðstæðna og skólaganga nemenda sem stunda nú nám við skólann hefur mótast af því. Aurora-samstarfið er tækifæri til að hjálpa nemendum að þróa með sér starfshæfni og viða að sér hagnýtri reynslu ólíkri þeirri sem hægt er að veita í hefðbundinni kennslustofu.”
Hún segir jafnframt að reynsla af alþjóðasamstarfi sé ómetanlegur grunnur fyrir nemendur sem muni nýtast á vinnumarkaði óháð því hvaða braut nemendur ætla sér að feta að námi loknu.
„Aurora-samstarfið er einnig mikilvægt tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum fyrir nemendur á eigin námi og láta til sín taka. Þátttaka í Aurora eykur þekkingu nemenda og hjálpar þeim að móta sterka sjálfsmynd þar sem þau munu búa að reynslu sem kennir þeim að þeirra framlag skiptir máli.”
Mikilvægt að háskólar þróist í takt við tæknina og taki mið af ólíkum þörfum nemenda
Um framtíð evrópskra háskóla segir Alma að hún vonist til að sjá þá þróast í þá átt að hlustað verði á raddir nemenda sem kalla eftir því að háskólar þeirra þróist í takt við tæknina, geri sér grein fyrir því að þarfir nemenda eru margvíslegar og bjóði upp á fjölbreyttari kennsluhætti og þar með eins yfirgripsmikla og blæbrigðaríka menntun og kostur er. Nýsköpun af þessu tagi geti mætt kröfum nemenda og gagnast Háskólanum sem tæki til að nútímavæða kennsluhætti. Slík menntun myndi einnig stuðla að því að nemendur haldi út í atvinnulífið með gagnlegri verkfærakistu en ella.
„Ef það er eitthvað sem heimsfaraldurinn hefur kennt okkur þá er það að kennsluhættir geta tekið mið af breyttum aðstæðum. Ég vona að evrópskir háskólar nýti þetta sem tækifæri til að halda áfram að þróa kennsluhætti, svo sem með ríkari áherslu á vendikennslu, tengsl við atvinnulífið, gestafyrirlesara, hvort sem er í eigin persónu eða í gegnum fjarkennslu og alþjóðlegt samstarf. Þetta eru nauðsynlegar stoðir sem veita nemendum heildrænni menntun.”
Alma er í meistaranámi í þýðingarfræði en hefur áður lokið BA-prófi í ensku við HÍ. Hún hefur setið í Stúdentaráði en hún var forseti sviðsráðs Hugvísindasviðs og ritari Stúdentaráðs árið 2016.
Alma hóf störf í byrjun júní en sumarið mun að miklu leyti fara í að undirbúa móttöku erlendra nemenda, s.s. að útvega þeim mentor og skipuleggja dagskrá kynningardaga í samstarfi við Alþjóðasvið. Hún er með aðstöðu á Skrifstofu Stúdentaráðs á 3. hæð á Háskólatorgi (HT336). Þá má hafa samband við hana í gegnum netfangið internationalcommittee@hi.is eða í síma 5700850.
Um leið og við bjóðum Ölmu velkomna til starfa þökkum við Emily fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.