Hlýnandi loftslag bætir afkomu vatnasilungs í nyrstu héruðum Kanada
Hlýnandi loftslag mun hafa jákvæð áhrif á afkomu vatnasilunga í nyrstu héruðum Kanada, að minnsta kosti til skamms tíma. Það mun birtast í auknum vaxtahraða og aukinni útbreiðslu þeirra í vötnum á svæðinu. Þetta sýna niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar vísindamanna sem staðið hefur yfir í hálfan annan áratug og nær til hundraða þúsunda vatna sem ekki hafa verið rannsökuð með þessum hætti áður. Sagt er frá niðurstöðum í grein sem birtist í nýjasta hefti vísindaritsins Nature Climate Change en meðal höfunda hennar er Steven Campana, prófessor við Líf- umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Steven, sem er kanadískur að uppruna en starfað við Háskóla Íslands undanfarin fimm ár, hefur ásamt kollegum sínum frá Kanada og Bandaríkjunum stundað rannsóknir í vötnum í nyrstu og afskekktustu héruðum Kanada, eina 2000 km fyrir norðan Toronto. „Þetta er vægast sagt afskekkt, við vorum um 200 kílómetra frá næstu mannabyggðum. Þetta eru heimkynni tegunda eins og sauðnauta, hreindýra, refa og úlfa og þau voru reglulegir gestir í vinnubúðum okkar,” segir Steven og bætir við að líklega hafi vísindahópurinn verið fyrstu mennirnir til þess að koma að mörgum vatnanna sem rannsökuð voru.
Í þeim er að finna silungstegund sem getur orðið allt að metri á lengd og 35 kíló og er náskyld bleikjunni sem finna má víða á norðurslóðum, þar á meðal í íslenskum vötnum. Lítil sem engin veiði hefur verið í flestum þeim vötnum sem könnuð voru í rannsókninni vegna fjarlægðar frá mannabyggðum. Hins vegar er talið líklegt að það muni breytast samfara hlýnandi loftslagi á norðurslóðum. Óttast vísindamenn að tegundin geti verið viðkvæm fyrir ofveiði þar sem hún er talin vaxa hægt.
Til þess að varpa ljósi á aldur fiskanna rannsökuðu vísindamennirnir kvarnir sem finna má í hauskúpum beinfiska.
Silungar geta orðið allt að 65 ára á svæðinu
Alls stóðu rannsóknirnar yfir í 15 ár og á þeim þeim tíma veiddi hópurinn og mældi og rannsakaði 4.600 silunga úr 55 vötnum í nyrstu héruðum Kanada. „Við rannsóknirnar nýttum við litla uppblásna báta og net til þess að ná í silung í vötnunum en í mörgum þeirra reyndist mikið af bæði silungi og bleikju sem reyndust mun stærri en í vötnum sunnar í landinu,“ segir Steve.
Sérstök áhersla var á rannsóknir á svokölluðum kvörnum sem finna má í hauskúpum beinfiska en í þeim myndast hringir líkt og árhringir trjá sem gefa til kynna aldur dýranna. „Kvarnir úr silungum úr vötnunum sýndu að þeir geta orðið 65 ára gamlir sem er mun eldra en silungar í vötnum sem liggja sunnar eða þar sem veiði er mikil,“ bendir Steve á en hann hefur í rannsóknum sínum m.a. þróað leiðir til að ákvarða aldur fiskitegunda.
„Þetta er vægast sagt afskekkt, við vorum um 200 kílómetra frá næstu mannabyggðum. Þetta eru heimkynni tegunda eins og sauðnauta, hreindýra, refa og úlfa og þau voru reglulegir gestir í vinnubúðum okkar,” segir Steven og bætir við að líklega hafi vísindahópurinn verið fyrstu mennirnir til þess að koma að mörgum vatnanna sem rannsökuð voru.
Lífvænlegum vötnum fjölgi um 30 þúsund á næstu 30 árum
Gríðarlegan fjölda vatna er að finna norðarlega í Kanada. Til þess að reyna að áætla hversu mörg þeirra væru lífvænleg fyrir silunga nýttu vísindamennirnir gervihnattamyndir af svæðinu, sem svipar til mynda sem finna má á Google Earth, og þróuðu tölvulíkan til þess að telja og áætla einkenni vatnanna. Þau reyndust alls um 7,2 milljónir. „Flest þessara vatna eru of grunn til þess að fiskar geti þrifist í þeim því þau botnfrjósa á veturna. Við komumst hins vegar að því að 481.784 vötn á svæðinu væru lífvænleg fyrir fiska,“ segir Steve en það eru 34% af öllum vötnum í heiminum sem gætu verið búsvæði fiska. Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að meðalstærð vatna í norðurhluta Kanada var 21 hektari, meðaldýpt um 2,5 metrar og meðalhiti 1,5 gráða.
Samfara hækkandi hitastigi á jörðinni sem fylgir loftlagsbreytingum hækkar hitastig í vötnunum og samkvæmt rannsóknum vísindamannanna mun það hafa þau áhrif á silungsstofna í nyrstu héruðum Kanada að fiskarnir vaxi hraðar en deyja fyrr. „Vöxtur silungsins mun samkvæmt niðurstöðum okkar aukast um 20% fram til ársins 2050 og ef hiti heldur áfram að hækka á jörðinni mun vötnum sem lífvænleg eru fyrir fiska á svæðinu fjölga um 30 þúsund á sama tíma. Samtals mun fjöldi og stærð silunganna í norðurhluta Kanada aukast um 29 prósent á tímabilinu samkvæmt okkar útreikningum,“ segir Steven. Líklegt sé að silungur nemi ný vötn bæði fyrir tilstilli árstíðabundinna flóða og mögulega með fuglum sem beri með sér silungahrogn. Steven bendir hins vegar á að þar sem talið sé að tegundin vaxi almennt hægt muni mikil fiskveiði á svæðinu alls ekki reynast sjálfbær.
„Þessar niðurstöður, að afkoma heimskautasilungs muni batna samfara loftslagsbreytingum, eru kærkomin tíðindi þegar litið er þess að víða annars staðar í heiminum eiga fiskistofnar og aðrar dýrategundir undir högg að sækja vegna loftslagsbreytinga,“ segir Steven um þýðingu niðurstaðnanna.