Húsnæðismál og ávarp heilbrigðisráðherra á sviðsþingi
Árlegt þing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 25. apríl. Þingið var vel heppnað en þátttaka hefði mátt vera betri.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra opnaði þingið með ávarpi. Óttarr fjallaði um helstu áherslur ríkisstjórnar í heilbrigðismálum og mikilvægi samvinnu og samráðs. Helstu verkefni fram undan eru að setja fram heildstæða stefnu sem skýrir betur markmið heilbrigðisþjónustunnar og verkaskiptingu. Forvarnir, lýðheilsa og geðheilbrigðismál skipa þar sérstakan sess. Óttarr nefndi dæmi um rannsókn sem mun nýtast heilbrigðisþjónustunni en það er MoodFOOD (e. Multi-country collaborative project on the role of diet, food-related behaviour, and obesity in the prevention of depression) verkefnið undir stjórn Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors við Matvæla- og næringarfræðideild, og samstarfsaðila. Markmið verkefnisins er að auka skilning á því hvort og þá með hvaða hætti næringarástand og fæðuvenjur tengjast offitu og þunglyndi.
Nánari upplýsingar um MoodFOOD
Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, flutti fréttir af starfsemi sviðsins á síðastliðnu ári. Í máli sínu lagði Inga ríka áherslu á verkefni og þjónustu sviðsskrifstofunnar, m.a. í starfsmannamálum, námi og kennslu, rannsóknum, fjármálum og markaðs- og kynningarmálum.
Deildarforsetarnir og prófessorarnir Helga Jónsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, og Hákon Hrafn Sigurðsson, Lyfjafræðideild, gerðu grein fyrir nýrri stefnu og aðgerðaráætlun Heilbrigðisvísindasviðs. Markmið Heilbrigðisvísindasviðs eru hin sömu og stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2016 – 2021. Unnið var að sérstökum áherslum Heilbrigðisvísindasviðs á síðasta ári, bæði á sviðsþingum og með rafrænum gáttum þar sem starfsmenn og nemendur á sviðinu gátu komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Að lokum unnu fjórir starfshópar að aðgerðaáætlun sviðsins þar sem fram koma ábyrgðaraðilar og tímaáætlun. Öflugur háskóli - farsælt samfélag er kjarni málsins þar sem tvinnast saman mannauður, nám, rannsóknir og virk þátttaka í samfélaginu.
Formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs, Elísabet Brynjarsdóttir, nemi í hjúkrunarfræði, kom sjónarmiðum nemenda á framfæri. Nemendum eru húsnæðismál Heilbrigðisvísindasviðs og fjárskortur háskólanna mjög hugleikinn. Dreifing bygginga sviðsins dregur úr samskiptum og samvinnu nemenda úr mismunandi greinum.
Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild og formaður Vísindanefndar deildarinnar, og Katrín B. Jónasdóttir, markaðs- og vefstjóri Heilbrigðisvísindasviðs, fjölluðu um mikilvægi þess að vísindi og vísindafólk væru sýnileg og þá ekki síst á vefnum. Katrín var með stutta sýningu á því hvernig má nota símaskrá háskólans til þess að auka sýnileika vísindafólks.
Jón Atli Benediktsson, prófessor og rektor Háskóla Íslands, fór yfir stöðu húsnæðismála Heilbrigðisvísindasviðs. Í framkvæmdaáætlun skólans er gert ráð fyrir að reisa nýbyggingu á fjórum hæðum við Læknagarð (9.300m2) sem tilbúið verður árið 2023. Einnig er gert ráð fyrir endurbótum á Læknagarði og endurbætur á Eirbergi eru hafnar. Jón Atli greindi frá því að reynt yrði að koma sem mestu af starfsemi sviðsins fyrir í byggingunum þremur. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ, hefur verið fenginn til þess að leiða þarfagreiningu vegna húsnæðisins.
Fundarstjóri þingsins var Bjarni E. Pjetursson, prófessor og forseti Tannlæknadeildar.
Hægt er að skoða glærur allra flytjenda á svæði Heilbrigðisvísindasviðs í Uglu.