Skip to main content
4. júlí 2019

Það er hreinlega sláandi að horfa til þessu hversu hátt hlutfall þjóðarinnar þarf að glíma við krabbamein en hartnær einn af hverjum þremur Íslendingum fær slíkt mein á lífsleiðinni. Því er til mikils að vinna að finna lækningu á krabbameini enda greinast árlega nálega 1.500 ný tilfelli. Stöðugt er leitað að nýjum lyfjum í baráttunni við þennan illvíga vágest en það flækir málin að krabbamein er ekki einn sjúkdómur heldur samheiti yfir nærri 200 mismunandi sjúkdóma sem flestir krefjast sérhæfðrar meðferðar. 

Marga vísindamenn dreymir um að uppgötva „þetta eina sanna lyf“ sem læknar alla af krabbameini en óvíst er að slíkt lyf komi nokkurn tímann fram. Framþróun er engu að síður stöðug og ný lyf koma sífellt á markað sem auka batalíkur mjög margra. En eins og títt er um lyf þá hafa þau nýju ýmsar aukaverkanir sem full þörf er á að rannsaka til hlítar. 

„Rannsóknin mín snýst um að kortleggja og kanna áhættuþætti fyrir því að sjúklingar sem eru í meðferð með ákveðnum krabbameinslyfjum fái lifrarskaða af þessum lyfjum, sérstaklega nýjum lyfjum sem hafa áhrif á ónæmiskerfið.“ Þetta segir Einar Stefán Björnsson, prófessor í almennum lyflækningum við Háskóla Íslands, en hann hefur vakið töluverða rathygli víða um lönd fyrir rannsóknir sínar á aukaverkunum lyfja, m.a. er grein frá hans rannsóknarhóps sem birtist í tímaritinu Gastroenterology 2013 með u þ b 400 tilvitnanir skv. Google scholar í júní 2019.

„Margra áratuga reynsla er af notkun eldri krabbameinslyfja,” segir Einar Stefán, „en valmöguleikarnir hafa aukist verulega með tilkomu einstofna mótefna og nýrra kynslóða lyfja sem hafa áhrif á ónæmiskerfið.“

Heimsþekktur fyrir rannsóknir á lifrarskaða af lyfjavöldum
Rannsóknir Einars Stefáns á lifrarsjúkdómum hafa meðal annars beinst að því að finna áhættuþætti fyrir slæmum horfum sjúklinga og að lýsa náttúrlegum gangi sjúklinga með lifrarskaða af völdum lyfja. Einar Stefán segir að Ísland sé mjög góður staður fyrir svokallaðar lýðgrundaðar rannsóknir á lifrarskaða af völdum krabbameinslyfja. Stærð þjóðarinnar sé hentug, fáar stofnanir veiti krabbameinslyfjameðferð og skráning yfir krabbameinslyf og önnur lyf sé góð. 

„Framsýn rannsókn á tíðni lifrarskaða af völdum krabbameinslyfja var gerð hér árin 2010 til 2012 og fannst þá hæsta tíðni um lifrarskaða sem birt hefur verið,“ segir Einar Stefán sem hefur dálítið sérstæðan og skemmtilegan bakgrunn í námi. Hann hefur því ekki orðið alveg samferða mörgum læknum á þeirri leið sem hann fetaði. Einar Stefán nam nefnilega bæði sálfræði í eitt ár og heimspeki í tvö ár við Háskóla Íslands áður en hann innritaðist í Læknadeild. Að loknu prófi í læknisfræði fór Einar Stefán til Svíþjóðar og lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla árið 1994. Hann hlaut einnig sérfræðiréttindi í lyf-og meltingarlækningum frá hinu þekkta Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsi.

Krabbamein er flókið fyrirbæri – einnig lækningin
Þótt krabbamein sé orð sem komi oft fyrir í ræðu og riti eru margir í raun ekki alveg vissir um hvað hér er á ferðinni. Frumur líkamans raða sér skipulega upp í heilbrigðum líkama og sinna starfsemi vefja og líffæra. Það er sameiginlegt öllum krabbameinum að þau orsakast af skemmdum í erfðaefni fruma sem svo leiðir til stjórnlausrar frumufjölgunar og afbrigðilegrar hegðunar fruma. Krabbameinsfruman brýtur þá hegðunarreglur eðlilegra fruma og fer að valda tjóni á líkamanum. 

Það fer eftir eðli krabbameinsins hversu illvígar krabbameinsfrumurnar verða. Níutíu prósent af krabbameinum eiga upptök sín í þekjuvefslíffærum eins og lungum og brjóstum. Í upphafi mynda krabbameinsfrumur staðbundin æxli í þessum líffærum. Fái meinið að vaxa eru miklar líkur að frumurnar vaxi inn í aðlæga vefi og komist loks inn sogæða- eða blóðrásarkerfið. Þá geta krabbameinsfrumurnar myndað meinvörp í fjarlægum líffærum.  

Komið hefur í ljós að krabbameinsfrumur hafa önnur efnaskipti en heilbrigðar frumur og ný lyf vinna m.a. með hliðsjón af þessum efnaskiptum og sum hafa auk þess áhrif á ónæmiskerfið í baráttunni við krabbameinsfrumurnar. Mjög mikilvægt er að fylgjast vel með og rannsaka áhrif allra lyfja, ekki síst þessara nýju krabbameinslyfja, á horfur sjúklinganna þegar til lengri tíma er litið.   

„Tilvik hafa verið kynnt erlendis frá þar sem sjúklingar hafa fengið lifrarskaða, t.a.m. gulu vegna krabbameinslyfjameðferðar. Ekki eru til neinar kerfisbundnar rannsóknir á hversu algengt þetta er né hvaða sjúklingar eru í mestri áhættu og hvort þessi aukaverkun hafi áhrif á horfur sjúklinganna.“ 

Niðurstöður sýna lyfin sem valda mestum skaða
Einar Stefán segir að niðurstöður rannsóknarinnar muni gefa til kynna hvaða krabbameinslyf valdi helst lifrarskaða og hverjar horfur sjúklinga séu. „Þannig verður hugsanlega hægt að finna áhættuþætti fyrir þessari aukaverkun lyfjanna. Rannsóknarhópur okkar hefur mikla sérþekkingu á viðfangsefninu og hefur fjöldi greina í erlendum ritrýndum fagtímaritum verið birtur. Að mörgu leyti eru kjöraðstæður til rannsókna á hversu margir þeirra sem taka lyf lenda í aukaverkunum hér á Íslandi. Þar kemur til Lyfjagagnagrunnur Landlæknis sem er mikilvægt rannsóknartæki þar sem allar ávísanir á lyf utan spítala eru skráðar. Smæðin gerir það að verkum að við náum vel utan um þýðið og annars staðar hefur ekki tekist að gera eins rannsóknir og við höfum gert að þessu leyti. Enginn annar rannsóknarhópur hefur fundið viðlíka hlutfall sjúklinga sem fær lifrarskaða af tilteknum lyfjum og þar af leiðandi fjölda sjúklinga sem þarf að meðhöndla með lyfi svo einn fái aukaverkunina. Líkur eru á því að einnig verði hægt að reikna út slíkt fyrir viss krabbameinslyf út frá niðurstöðum rannsóknarinnar,” segir Einar Stefán og bætir því við að þetta sé hluti af doktorsverkefni Helga Kristins Björnssonar, unglæknis við Landspítalann. Einar Stefán segir að rannsóknir eins og sú sem hann vinnur nú að skapi nýja þekkingu sem sé forsenda fyrir framförum sem bæti hag sjúklinga.  
 

Einar Stefán Björnsson