Lífvísindasetur Háskóla Íslands hlýtur verðlaun fyrir frumkvæði og forystu
Lífvísindasetur Háskóla Íslands hlaut í morgun verðlaun á ársfundi Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi frumkvöðlastarf á sviði grunnrannsókna í lífvísindum þvert á fræðasvið og deildir Háskóla Íslands og í samvinnu við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og atvinnulíf. Þrír af forsprökkum setursins, prófessorarnir Þórarinn Guðjónsson og Eiríkur Steingrímsson og Sigríður Klara Böðvarsdóttir forstöðumaður, tóku við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands.
Með viðurkenningunni, sem nú er veitt í fyrsta sinn, vill Háskóli Íslands verðlauna teymi sem sýnt hafa sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu á framúrskarandi starfsemi innan skólans. Við Lífvísindasetur Háskóla Íslands starfar hópur öflugra vísindamanna að mikilvægum grunnrannsóknum, auk þess sem setrið hefur byggt upp sterkt samfélag doktorsnema. Vísindastarfið innan Lífvísindasetursins hefur átt þátt í því að skipa Háskóla Íslands í fremstu röð sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla.
Lífvísindasetur Háskóla Íslands hóf starf fyrir um 15 árum sem óformleg samvinna vísindamanna þvert á fræðigreinar, en setrið var formlega stofnað árið 2011 sem samstarf rannsóknahópa í sameinda- og lífvísindum. Meginmarkmið setursins er að efla rannsóknir í lífvísindum með sameiginlegri uppbyggingu og rekstri kjarnaeininga og hagkvæmri samnýtingu tækjabúnaðar og annarra innviða. Afar hröð þróun hefur verið í lífvísindum á síðustu árum og áratugum og til að vera virkur þátttandi í henni leitast Lífvísindasetur Háskóla Íslands við að tryggja að nýjasta tækni og aðferðir séu fyrir hendi sem nýst geta öllum rannsóknahópum.
Rannsóknahópar við Lífvísindasetur Háskóla Íslands eru um 60 talsins og stunda rannsóknir sem tengjast fjölmörgum sviðum lífvísinda, s.s. erfðalækningum, lífeðlisfræði, lyfjafræði, sameindalíffræði krabbameina, starfsemi og sérhæfingum stofnfruma, stjórnunar genatjáningar, taugalíffræði og þroskunar- og þróunarfræði.
Rannsóknarhópa undir hatti Lífvísindaseturs skipa vísindamenn og nemendur við Læknadeild og Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs og Líf- og umhverfisvísindadeild og Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Auk þess tengjast rannsóknahópar frá öðrum stofnunum setrinu, svo sem Landspítala, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Krabbameinsfélagi Íslands.
Með samstarfi þessara ólíku aðila hefur tekist að byggja upp sérhæfða kjarnastarfsemi í kringum mismunandi aðferðir og dýr rannsóknartæki sem stakir rannsóknarhópar hafa ekki bolmagn til að kaupa eða starfrækja. Samstarfið styrkir þannig stöðu lífvísinda á Íslandi í harðri samkeppni á alþjóðavettvangi.
Grunnrannsóknir undirstaða nýsköpunar
„Grunnrannsóknir eru undirstaða og forsenda hagnýtra rannsókna og nýsköpunar. Allar helstu framfarir síðustu áratuga og alda hafa í raun sprottið upp af grunnrannsóknum. Árangur Lífvísindaseturs Háskóla Íslands á þessu sviði staðfestir hverju er hægt að áorka þegar stór hópur vísindamanna og nemenda úr ólíkum fræðigreinum leggst á eitt en stærð og styrkur Háskólans sem stofnunar leikur þarna einnig stórt hlutverk. Árangur setursins undirstrikar einnig hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir Ísland að styðja myndarlega við háskólastarf sem uppsprettu nýsköpunar. Aðeins þannig getum við tryggt áframhaldandi samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Ísland, á ársfundinum í morgun þegar hann afhenti verðlaunin.
Starfsmenn Lífvísindaseturs sinna ekki einungis rannsóknum heldur koma einnig að kennslu í grunn- og framhaldsnámi innan Heilbrigðisvísindasviðs og Verk- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, en setrið hefur haft mikið aðdráttarafl meðal erlendra stúdenta sem sækjast eftir því að stunda doktorsnám við Háskólann. Hátt í 70 doktorsnemar hafa lokið prófi undir leiðsögn vísindamanna Lífvísindaseturs Háskóla Íslands.
„Fjölmörg tækifæri til frekari samvinnu eru til staðar innan Háskóla Íslands. Tækifæri til að byggja upp sameiginlega innviði og sameiginlega þjónustu við rannsakendur, bæði til að styrkja vísindastarfið og til þess að fjármagn til rannsókna nýtist sem best og að sú mikla þekking og reynsla sem er til staðar innan Háskólans nýtist sem best milli fræðasviða. Lífvísindasetur Háskóla Íslands er þannig fyrirmynd að vel heppnaðri uppbyggingu þvert á deildir og fræðasvið innan Háskóla Íslands þar sem vísindamenn starfa saman um leið og þeir ögra hver öðrum og efla þannig rannsóknastarf Háskólans,“ segir m.a. í rökstuðningi fyrir viðurkenningunni til Lífvísindaseturs.
„Frumkvæði og forysta – Ársfundarverðlaun Háskóla Íslands eru komin til að vera en með þeim viljum við undirstrika að alla daga er unnið stórmerkilegt starf innan Háskóla Íslands sem verðskuldar viðurkenningu, hvort sem það er á sviði náms og kennslu, rannsókna, jafnréttismála, samfélagsþátttöku eða frumkvæðis nemenda, svo dæmi séu tekin. Við munum þróa verðlaunin áfram og það verður spennandi að sjá hvaða hópur eða teymi hlýtur verðlaunin að ári,” sagði rektor Háskóla Íslands enn fremur á ársfundinum í morgun.