Skip to main content
6. desember 2017

Ljótt grænmeti verður lystug matvara 

""

Grænmetisgrunnur sem nota má t.d. í súpur, sósur og ídýfur og unninn er úr grænmeti, sem alla jafna er hent vegna útlitsgalla, var framlag tveggja matvælafræðinema og nemanda í vöruhönnun í evrópskri nýsköpunarkeppni á sviði matvæla sem fram fór í London á dögunum. Nemendurnir stefna að því að koma vörunni á markað.

Keppnin sem um ræðir nefnist Ecotrophelia og er haldin árlega. Markmið hennar er að hvetja háskólanema til nýsköpunar á sviði matvæla með umhverfisvænar lausnir í huga en fram kemur á heimasíðunni matarsoun.is að keppnin hafi reynst fagfólki í matvælaiðnaði dýrmæt uppspretta hæfileikafólks, hugmynda og nýsköpunar.

„Nemendur í matvælafræði hafa verið hvattir til að taka þátt í þessari keppni og við því vitað af henni síðustu ár. Í framhaldi af umræðu um matarsóun í fjölmiðlum, þá sérstaklega á íslensku grænmeti, langaði okkur að reyna að þróa vöru úr þessu hráefni,“ segir Hildur Inga Sveinsdóttir, doktorsnemi í matvælafræði við Háskóla Íslands og einn af aðstandendum verkefnisins, um upphaf þess.

„Einnig vildum við að vöruna væri hægt að nýta til að bera fram holla máltíð með minni háttar fyrirhöfn og að hún væri stöðug í geymslu með langt geymsluþol. Úr varð grænmetisgrunnurinn Ugly en nafnið vitnar í þær skorður sem útlitskröfur neytenda og þ.a.l. verslana setja grænmetisframleiðendum. Í vöruna er hægt að nýta það grænmeti sem ekki er selt ferskt beint til neytanda,“ segir Málfríður Bjarnadóttir, sem einnig kom að þróun grunnsins en hún lauk meistaraprófi í matvælafræði í vor.

Matvælafræðinámið góður undirbúningur
Þær stöllur hófu þróunina í mars á þessu ári og fengu til liðs við sig Margréti Örnu Vilhjálmsdóttur, nema í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, til að hanna umbúðirnar. Keppnin snýst hins vegar ekki aðeins um að kynna hugmynd að vöru heldur þurftu þær stöllur einnig að leggja fram markaðsáætlun, fjárhagsáætlum ásamt rannsóknum á öryggi framleiðslunnar og stöðugleika vörunnar. „Matvælafræðinámið undirbjó okkur vel undir það að setja saman áhættumat á framleiðsluferlinum og svokallað HACCP-plan fyrir ferilinn ásamt því að gefa okkur góðan grunn sem nýttist í að ákvarða hvernig best væri að hátta samsetningu vörunnar með tilliti til stöðugleika og geymsluþols hennar. Sá hluti sem vafðist mest fyrir okkur voru markaðsmál og fjárhagsáætlum en við vorum svo heppnar að fá dýrmæta hjálp frá fjölskyldumeðlim við þá vinnu,“ segir Hildur. 

Aðspurðar hvers vegna þær hafi ákveðið að taka þátt í Ecotrophelia-keppninni segir Málfríður að þær hafi viljað öðlast reynslu í því að þróa vöru frá grunni. „Ekki skemmdi fyrir að markmið þessa verkefnis var að búa til vöru sem að einhverju leyti nýtir áður ónýtta afurð eða nýjar umhverfisvænni framleiðsluaðferðir. Það er mjög dýrmætt að fá tækifæri til að ganga í gegnum þetta ferli og fá að lokum að ræða það og vöruna við dómnefndina sem samastendur af fólk alls staðar að úr Evrópu með mikla reynslu í þróun matvara,“ segir hún.

Með góða vöru í höndunum
Keppnin fór fram í London dagana 21. og 22. nóvember og að þessu sinni voru matvörur frá sextán Evrópulöndum sendar inn til þátttöku. „Við fengum mjög góð viðbrögð frá dómurum sem fannst varan bæði bragðgóð og sniðug. Það var gaman að sjá fjölbreytileikann í vörunum sem sendar voru inn í keppnina og að hitta nemendur frá öðrum skólum með sama áhuga á vistvænni nýsköpun matvæla,“ bætir Málfríður við. 

Nú þegar keppninni er lokið stefna þær Hildur, Málfríður og Margrét að því að kanna áhuga fyrir framleiðslu á vörunni. „Við erum með góða vöru í höndunum sem getur nýst hinum almenna neytanda mjög vel. Þetta er grænmetisgrunnur sem er aðallega úr tómötum, gulrótum og lauk. Hann er hægt að þynna með t.d. vatni eða rjóma til að búa til súpu, rjómaosti til að búa til álegg eða ídýfu, jógúrt til að búa til sósu eða sem bragðgjafa út í hvað það sem neytandanum dettur í hug. Varan hefur langt geymsluþol og margs konar notkunarmöguleika og við teljum að hún eigi erindi á íslenskan markað,“ segir Hildur að endingu.

'Nánari upplýsingar um Ecotrophelia-keppnina má finna á heimasíðu hennar.

Þau sem hafa áhuga á frekari upplýsingum um Ugly geta haft samband við Hildi Ingu í gegnum netfangið hilduringa@matis.is

Málfríður Bjarnadóttir, Hildur Inga Sveinsdóttir og Margrét Arna Vilhjálmsdóttir
Umbúðir vörunnar Ugly