Skip to main content
19. nóvember 2019

Mæður sem missa börn líklegri til að deyja fyrir aldur fram

Ótímabær dauðsföll eru algengari meðal kvenna sem misst hafa barn en annarra kvenna, samkvæmt nýrri rannsókn sem vísindamenn Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar hafa unnið og nær til allra foreldra á Íslandi síðustu tvær aldir. Greint er frá rannsókninni í nýjasta hefti vísindatímaritsins eLife sem kom út nýverið.

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós tengls á milli barnsmissis og aukinnar hættu á geðsjúkdómum, hjartasjúkdómum og jafnvel ákveðnum tegundum krabbameina. Rannsóknir benda einnig til að það sé aukin áhætta á ótímabæru andláti mæðra í kjölfar slíkra atburða, hvort sem horft er til sjálfsvíga eða andláts af náttúrulegum orsökum. 

Flestar slíkar rannsóknir ná hins vegar til velmegandi samfélaga samtímans þar sem barnadauði er alla jafna hlutfallslega lágur. Því hefur enn fremur verið haldið fram, m.a. af sagnfræðingum, að tengsl foreldra við börn fyrr á tímum, þegar barnadauði var meiri, hafi verið minni og áhrif barnsmissis því minni á foreldra. Aðrir segja þessi tengsl og áhrif barnadauða engu minni fyrr á tímum.

Til að varpa frekara ljósi á þetta skoðuðu vísindamenn við Háskóla Íslands og Íslenska erfðagreiningu áhrif barnsmissis á dánartíðni foreldra hér á landi undanfarin 200 ár. Á þessum tíma hefur Ísland þróast úr fátæku bændasamfélagi í þróað velmegandi samfélag þar sem tíðni barnadauða er lág. 

Við rannsóknina nýtti hópurinn ættfræðigrunn Íslenskrar erfðagreiningar og náði hún til allra foreldra á Íslandi sem fæddir voru á árunum 1800-1996. Meginniðurstöðurnar byggjast á samanburði á dánartíðni tæplega 48 þúsund foreldra sem misstu barn á  tímabilinu og um 126 þúsund systkina þeirra sem ekki  upplifðu slíkan harmleik. 

Í ljós kom að hlutfall  foreldra sem misstu börn minnkaði úr ríflega 61% á meðal foreldra fæddra á árunum 1800-1880 í 5,2% á meðal foreldra sem fæddust 1930-1996. Það undirstrikar þær framfarir sem orðið hafa hér á landi í heilbrigðismálum á tímabilinu. Enn fremur sýndu niðurstöður að tengsl væru á milli andláts barns og aukinnar hættu á ótímabæru andláti móður, en þar er miðað við andlát fyrir fimmtíu ára aldur. Sams konar tengsl fundust ekki hjá feðrum. Aukin tíðni ótímabærra andláta mæðra eftir barnsmissi var merkjanleg yfir allt tveggja alda tímabil rannsóknarinnar en var nokkuð breytileg eftir skeiðum. Þannig reyndust ótímabær andlát mæðra sem fæddar voru 1800-1930 aukast um 35% eftir barnsmissi en 64% meðal mæðra sem fæddar eru eftir 1930. 

Höfundar rannsóknarinnar undirstrika að niðurstöðurnar sýni að barnsmissir hafi veruleg áhrif heilsufar og dánartíðni mæðra, óháð því hvaða tímabil sé um að ræða, 19. öld eða þá 20.

Fyrstu höfundar greinarinnar eru Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, og Donghao Lu, nýdoktor við Harvard TH Chan lýðheilsuháskólann, en rannsóknin er samstarfsverkefni þeirra og hóps vísindamanna við Íslenska erfðagreiningu, þeirra Kára Stefánssonar Agnars Helgasonar, Sigrúnar Helgu Lund, Þórðar Kristjánssonar, Daníels Guðbjartssonar og erlendra vísindamanna.

Vísindagreinina má nálgast á vef eLife en þess má geta að forsíða nýjasta heftis tímaritsins er helguð rannsókninni.

Unnur Anna Valdirmarsdóttir