María Guðjónsdóttir hlýtur 116 milljóna króna Evrópustyrk
María Guðjónsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, hefur hlotið Evrópustyrk frá BlueBio Cofund Call sem nemur 116 milljónum íslenskra króna. BlueBio Cofund Call er svokölluð ERA-NET samstarfsáætlun sem heyrir undir H2020-rannsóknaáætlun Evrópusambandsins og er ætlað að styðja rannsókna- og þróunarsamstarf ólíkra stofnana.
Verkefni Maríu, BIOZOOSTAIN, snýst um sjálfbæra nýtingu og vöruþróun á rauð- og ljósátu sem fengin er sem hliðarafurð frá veiðum á uppsjávarfiski. Samstarfsaðilar Háskóla Íslands í rannsókninni eru Landspítalinn - Blóðbankinn, Matís, DTU-Aqua í Danmörku, Bologna-háskóli á Ítalíu og Universitat Politecnica de Valencia á Spáni. Samstarfsaðilar úr atvinnulífi eru Síldarvinnslan SVN á Neskaupstað og FF Skagen í Danmörku. Gert er ráð fyrir þjálfun bæði doktors- og meistaranemenda í verkefninu og er áætlað er að það hefjist núna í janúar.
Hér má lesa nánar um ERA-NET samstarfsáætlunina.
(Mynd af ljósátu efst í frétt fengin af Wikipediu:)