Skip to main content
21. október 2016

Matvæla- og næringarfræðideild verðlaunuð

""

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís hlutu Fjöregg Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ) fyrir árið 2016. Frá þessu var greint á ráðstefnu Matvæladags MNÍ sem haldin var á Hótel Natura þann 20. október sl. 

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og Matís hljóta Fjöreggið fyrir árangursríkt samstarf um rannsóknir og kennslu í matvælafræði, ekki síst fyrir samstarf um alþjóðlegt meistaranám í matvælafræði sem hleypt var af stokkunum í núverandi mynd árið 2012. Þau María Guðjónsdóttir, dósent í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild, og Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís, tóku við viðurkenningunni úr hendi Almars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.

Fjöregg MNÍ er veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði en það hefur frá upphafi verið veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins. Í dómnefnd Fjöreggsins að þessu sinni sátu Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Grímur Ólafsson, matvælafræðingur og fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, Lilja Rut Traustadóttir, næringarfræðingur og gæðastjóri hjá Gæðabakstri/Ömmubakstri, og Rakel Garðarsdóttir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Vakandi.

Þess má get að auk Matvæla- og næringarfræðideildar og Matís voru Eimverk, Fisherman, Kaldi bruggsmiðja og Norður & Co tilnefnd til verðlaunanna.

Við sama tilefni fékk Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, heiðursviðurkenningu MNÍ fyrir lofsvert framtak í þágu matvæla- og næringarrannsókna á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem MNÍ veitir slíka viðurkenningu.

Frá vinstir: Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís, María Guðjónsdóttir, dósent í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Fjöreggið 2016
Frá vinstir: Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís, María Guðjónsdóttir, dósent í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Fjöreggið 2016