Mikið æfingaálag hafi ekki áhrif á fæðingu
Mikið líkamlegt álag, eins og æfingar og líkamsrækt, og afreksþjálfun hjá konum fyrir fæðingu virðist ekki auka hættuna á fæðingarkvillum samkvæmt nýrri rannsókn sem íslenskir og norskir vísindamenn unnu og greint er frá í septemberhefti vísindatímaritsins British Journal of Sports Medicine. Rannsóknin hefur m.a. vakið athygli bandaríska stórblaðsins New York Times.
Aðalhöfundur greinarinnar er Þorgerður Sigurðardóttir, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands, en auk hennar standa leiðbeinendur hennar, Kari Bø, prófessor við Norges Idrettshögskole í Ósló, og Þóra Steingrímsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, að rannsókninni ásamt prófessorunum Reyni Tómasi Geirssyni, Thor Aspelund og Þórhalli Inga Halldórssyni, sem allir starfa við Háskóla Íslands.
Doktorsrannsókn Þorgerðar miðar að því að kanna hvort líkamlegt álag hjá konum fyrir fæðingu hafi hugsanleg áhrif á fæðingarferlið en Þorgerður starfar sem sjúkraþjálfari og er einn af helstu sérfræðingum landsins í sjúkraþjálfun sem tengist heilsu kvenna.
Sérfræðingar hafa almennt verið sammála um að hæfilegt æfingaálag, eins og kröftugar göngur og æfingar með miðlungsálagi, sé hollt á meðgöngu og hefur ófrískum konum verið ráðlagt að hreyfa sig að minnsta kosti í tvo og hálfan til þrjá klukkutíma á viku. Þá hafa nokkrar rannsóknir enn fremur ályktað að konur sem stunda íþróttir af kappi eigi frekar á hættu að glíma við kvilla í fæðingarferlinu, þ.e. að fara í bráðakeisaraskurð eða rifna í fæðingu.
Í rannsókninni sem fjallað er um í British Journal of Sports Medicine var leitað til 130 afrekskvenna í íþróttum á Íslandi en margar þeirra voru landsliðskonur í sínum íþróttum og höfðu æft fram á annan þriðjung meðgöngunnar eða lengur. Allar höfðu þær eignast börn en þær voru í rannsókninni spurðar út í æfingaálag að minnsta kosti þrjú ár fram að fæðingu. Um var að ræða konur í jafnólíkum íþróttum og knattspyrnu og hlaupum, þar sem átöku og högg eru algeng, og hestaíþróttum, golfi og sundi, þar álag tengt hoppi og lendingu er minna. Til samanburðar voru um 120 konur sem ekki stunduðu íþróttir af kappi spurðar út í æfingar sínar. Upplýsingar úr könnunum voru bornar saman við upplýsingar um þátttakendur í Fæðingarskrá Íslands en hún hefur að geyma ýmsa mælikvarða sem snerta fæðingar, eins og tíðni keisaraskurða, lengd meðgöngu og fleira.
Í ljós kom að enginn munur reyndist á tíðni ýmissa fæðingarkvilla hjá þessum tveimur hópum, eins og á bráðakeisaraskurði og lengri fæðingu. Þá reyndust afreksíþróttakonurnar síður líklegar til þess að rifna í fæðingu, sérstaklega þær íþróttakonur sem stunda íþróttir þar sem átök og högg koma við sögu, eins og knattspyrnu og hlaupum.
„Niðurstöðurnar sýna að afreksíþróttakonur þurfa ekki að búast við því að glíma við erfiðari fæðingar en þær konur sem ekki stunda íþróttir af kappi,“ segir Þorgerður Sigurðardóttir, í samtali við bandaríska stórblaðið New York Times sem gerði rannsókninni góð skil á dögunum. „Það er mjög gott að stunda líkamsrækt fyrir og meðan á meðgöngu stendur, bæði fyrir móðurina, barnið og fæðinguna sjálfa. Það er jafnframt mikilvægt að meta hvers konar hreyfing hentar hverju sinni. Verðandi mæður ættu að ræða við heilbrigðisstarfsmenn ef þær hafa áhyggjur af einhverju sem tengist hreyfingu og meðgöngu,“ segir Þorgerður enn fremur í samtali við dagblaðið.
Þorgerður hefur í rannsókn sinni einnig einblínt á grindarbotninn hjá konum fyrir og eftir fæðingu. „Konur sem glíma við grindarbotnsvandamál hætta kannski að hreyfa sig þegar þær fá þvagleka, þyngjast og fá hækkaðan blóðþrýsting og svo koll af kolli. Það er mjög margt hægt að gera við þessum vandamálum og því fyrr sem hjálpar er leitað, því betra. Það eru alltof margar konur sem leita sér ekki hjálpar en umræðan er góð. Hægt er að fá hjálp og stuðning hjá sjúkraþjálfurum, læknum og ljósmæðrum,“ segir Þorgerður en hún var í viðtali um doktorsrannsókn sína í Tímariti Háskóla Íslands á síðastliðnu ári.