Nærri sjö milljónir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini
Styrktarsjóður Göngum saman veitti í vikunni tveimur nemendum og einum vísindamanni Háskóla Íslands samtals 6,7 milljónir króna í styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
Göngum saman hefur veitt alls rúmar 107 milljónir króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007 og hafa nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands notið þess ríkulega. Stykirnir hafa runnið til fjölbreyttra verkefna innan deilda skólans og þannig stutt við þekkingarleit í þágu nýrra meðferða við brjóstakrabbameinum.
Þrír aðilar fengu styrk að þessu sinni:
- Arna Steinunn Jónasdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut 3 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli“.
- Clara Valls Ferré, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut 2,2 milljónir króna til verkefnisins „Æxlingar úr brjóstakrabbameinssjúklingum meðhöndlaðir með æðaþelssértækum sameindalyfjum“.
- Sævar Ingþórsson, lektor við Hjúkrunarfræðideild, Íslands hlaut 1,5 milljónir króna til verkefnisins „Ummyndunaráhrif HER2 yfirtjáningar í heilbrigðum brjóstaþekjufrumum“.
Styrkveitingin var um margt óvenjuleg í ár vegna COVID-19-faraldursins. Hún fór fram á Zoom-fjarfundi þar sem styrkþegar, félagsmenn og velunnarar félagsins um allt land og einnig í útlöndum tóku þátt. Tvíeykið Vísur og skvísur flutti enn fremur tónlistaratriði.
Um Göngum saman
Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Styrkveitingin í ár byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, s.s. Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið, en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í styrktarsjóð félagsins.