Ný námskrá í hjúkrunarfræði
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefur gefið út nýja námskrá í hjúkrunarfræði sem felur í sér breyttar áherslur í grunnnámi. Við endurskoðun námsins var einkum horft til þess að öldruðum og langveikum fer fjölgandi, auk þess að kostnaðarvitund hefur aukist og meiri kröfur eru um að veita heilbrigðisþjónustu úti í samfélaginu fremur en á sjúkrastofnunum.
Sérstök áhersla er lögð á að efla þann þátt námsins sem fjallar um færni í hjúkrun bráðveikra, langveikra og aldraðra ásamt heimahjúkrun og heilsuvernd. Þessi svið hjúkrunar hafa stækkað og brýn nauðsyn er á að koma betur til móts við auknar þarfir á þessum sviðum. Ný námskrá felur í sér áherslu á; gagnrýna hugsun og sjálfstæði, rannsóknir, gagnreynda þekkingu og vinnubrögð, samþættingu grunngreina og hjúkrunargreina, heilsugæslu og heilsuvernd, langveika og heimahjúkrun, undirbúning nemenda í hermi og vinnuálag nemenda.
Þá er lagt upp með að jafna vinnuálag nemenda í námskeiðum þar sem vinnuframlag að baki hverri ECTS-einingu hefur verið skilgreint. Kerfisbundið eftirlit með innihaldi og gæðum náms verður innleitt, þar sem eftirlit verður haft með gæðum allra námskeiða og námsins í heild. Hluti af því að tryggja gæði er að öll námskeið í deildinni séu í umsjón fastráðinna kennara. Gert er ráð fyrir að hluti af námi til BS-prófs verði metinn til meistaraprófs og með því styttist það nám umtalsvert. Vænta má niðurstöðu þeirrar vinnu síðar á árinu.
Kennsla hefst samkvæmt nýrri námskrá á fyrsta ári í grunnnámi í hjúkrunarfræði í haust. Nemendur sem hófu nám í hjúkrunarfræði fyrir þann tíma fylgja eldri námskrá.
Námskráin er aðgengileg á vefsíðu Hjúkrunarfræðideildar.