Nýjustu rannsóknir í heilbrigðisvísindum kynntar í HÍ
Vel á þriðja hundrað rannsóknir sem tengjast líf- og heilbrigðisvísindum verða kynntar á ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem haldin verður í skólanum dagana 5. og 6. janúar 2015. Þetta er í 17. sinn sem ráðstefnan er haldin en henni er ætlað að miðla því sem er efst á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum hverju sinni og stuðla að auknu þverfræðilegu samstarfi.
Á dagskrá eru yfir 160 erindi í 40 málstofum og um 130 veggspjaldakynningar sem ná yfir öll fræðasvið líf- og heilbrigðisvísinda. Til marks um fjölbreytnina þá spanna umfjöllunarefnin allt frá rannsóknum á dýrum og frumum til lífsgæða og velferðar á ólíkum æviskeiðum. Sérstök áhersla er lögð á að málstofur séu eins þverfræðilegar og unnt er til þess að tengja saman vísindafólk úr mismunandi áttum.
Í tengslum við ráðstefnuna verður efnt til opins fræðslufundar fyrir almenning þar sem heilsa tengd náttúruhamförum á Íslandi og tíðablæðingar verða í brennidepli. Tveir spennandi gestafyrirlesarar taka einnig til máls þar sem ebóla og Kabuki-heilkennið svokallaða verða til umfjöllunar.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér
Heimasíða ráðstefnunnar er hér