Nýr lektor við Íslensku- og menningardeild
Brynja Þorgeirsdóttir hefur verið ráðin í starf lektors í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hún mun starfa við námsgreinina Íslenska sem annað mál.
Brynja lauk doktorsprófi árið 2020 í norrænum fornbókmenntum frá háskólanum í Cambridge með ritgerðinni Emotions in Njáls saga and Egils saga: Approaches and Literary Analysis. Hún lauk MA námi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Frá lokum doktorsprófs hefur Brynja starfað sem nýdoktor við Cambridge háskóla við alþjóðlega rannsóknarverkefnið The Íslendingasögur as Prosimetrum en auk þess hefur hún frá árinu 2017 verið stundakennari við skólann og haft umsjón með öllum námskeiðum í nútíma íslensku, bæði byrjenda- og framhaldshópum. Brynja hefur einnig kennt námskeið í Íslendingasögum og forníslensku við Cambridge háskóla. Brynja starfaði á árunum 2001–2016 við fjölmiðla sem ritstjóri, höfundur og dagskrárgerðarmaður. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að tilfinningatjáningu í norrænum miðaldabókmenntum, í tengslum við sviðsetningu, líkama, tungumál og samverkan lauss máls og bundins.