Nýr sjóður til styrktar læknavísindum
Menntasjóður Læknadeildar Háskóla Íslands hefur verið stofnaður á grundvelli sameiningar þriggja annarra sjóða skólans sem hafa verið óvirkir um árabil. Tilgangur þessa nýja sjóðs er að styrkja nemendur við Læknadeild Háskóla Íslands til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis og fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis.
Stofnun sjóðsins og ráðstöfun þeirra þriggja sjóða sem leggja grunn að honum er liður í titlekt í sjóðasafni Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Sjóðirnir eru Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987). Mikilvægt er að sjóðir sem eru í eigu háskólans séu virkir, þ.e. að hægt sé að veita styrki til fyrirlestrahalds og rannsókna og viðurkenningar til nemenda hverju sinni og nýta þannig ráðstöfunarfé þeirra til að efla nám, fræðslu og þekkingarmiðlun hér á landi.
Stjórn Menntasjóðs Læknadeildar er skipuð þremur manneskjum, deildarforseta, varadeildarforseta og deildarstjóra Læknadeildar Háskóla Íslands hverju sinni. Í stjórn sjóðsins sitja nú Engilbert Sigurðsson prófessor, Ingibjörg Harðardóttir prófessor og Erna Sigurðardóttir deildarstjóri.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.