Skip to main content
26. nóvember 2024

Önnur tungumál ógna ekki íslensku

Önnur tungumál ógna ekki íslensku - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á undanförnum árum hafa áhyggjur af framtíð íslenskunnar að nokkru leyti færst frá áhrifum stafrænnar ensku á íslensku yfir á áhyggjur af íslenskukunnáttu innflytjenda. Í báðum tilfellum gengur umræðan yfirleitt út á að notkun annarra tungumála en íslensku á Íslandi feli í sér hættu á að íslenskan deyi út og það geti jafnvel markað endalok íslenskrar menningar og fullveldis Íslands. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Irisar Nowenstein, lektors í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors í íslenskri málfræði við sömu deild, sem birt er í tímaritinu Sociolinguistica. European Journal of Sociolinguistics. Nýjasta hefti þess er sérstaklega helgað íslenskum félagsmálvísindum, undir heitinu Current trends in Icelandic sociolinguistics. Það hefur að geyma sjö rannsóknargreinar eftir tíu fræðimenn.

Iris og Sigríður greindu fjölmiðlaumræðu um ógnir sem steðja að íslenskunni og tengja hana við niðurstöður rannsókna á íslenskufærni barna, fjöltyngi og málbreytingum. Þær segja að oft sé orðræðan herská og stríðsmyndatal jafnvel ríkjandi og sú orðræða sé sérstaklega skoðuð í greininni. Þær benda á að alþjóðlegar rannsóknir á fjöltyngi sýni að fjöltyngi ungra barna þurfi alls ekki að fela í sér að þau nái ekki valdi á móðurmálinu. Í því sambandi séu niðurstöður nýlegs íslensks rannsóknarverkefnis reifaðar en þær bendi ekki til mikilla áhrifa aukinnar stafrænnar ensku á íslenskufærni íslenskra barna enn sem komið er. Verkefnið leiddi þó í ljós að málumhverfi íslenskra barna er breytt frá því sem áður var og enskukunnátta þeirra meiri. Út frá breyttum forsendum barna til þess að taka íslensku og fjölgun tví- og fjöltyngdra barna á Íslandi eru færð rök fyrir því að það sé ekki vænlegt til árangurs að stilla ensku og öðrum erlendum tungumálum sem töluð eru á Íslandi upp sem ógn við íslenskuna. Vænlegra sé að hlúa að kunnáttu barna í íslensku og öðrum málum með viðeigandi stuðningi, m.a. með því að stuðla að jákvæðum viðhorfum í samfélaginu til tungumála almennt.

Ritstjóri sérheftisins um íslensk félagsmálvísindi er Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann segir í inngangi gestaritstjóra að markmið sitt með útgáfu þessa sérheftis hafi verið að kynna fyrir alþjóðlega fræðasamfélaginu áhugaverð sýnishorn af nýjum eða mjög nýlegum rannsóknum í íslenskum félagsmálvísindum þar sem samtíminn er í brennidepli. Umtalsverðar rannsóknir hafi verið gerðar og séu nú í gangi á mismunandi hliðum þess sem kalla megi félagsmálvísindalegar afleiðingar hinna geysihröðu félagslegu, lýðfræðilegu og menningarlegu breytinga hérlendis.

Ritstjóri sérheftis Sociolinguistica um íslensk félagsmálvísindi er Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Fræðafólk við Hugvísindasvið Háskóla Íslands eru höfundar og meðhöfundar eftirfarandi greina í sérhefti Sociolinguistica:   

Iris Nowenstein, lektor í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við sömu deild.