Skip to main content
17. apríl 2023

Óskað eftir tilnefningum í nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð

Óskað eftir tilnefningum í nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tilnefningarnefnd fyrir nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð óskar eftir tilnefningum um fulltrúa í ráðið.

Nefndin starfar á grundvelli laga um Vísinda- og nýsköpunarráð sem tóku gildi þann 1. apríl sl. Markmið laganna er að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar hér á landi svo að styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Við tilnefningu fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráð skal tilnefningarnefndin hafa hlutverk ráðsins að leiðarljósi og leggja áherslu á að það sé skipað fólki með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Forsætisráðherra, í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skipar níu fulltrúa í ráðið á grundvelli tillagna tilnefningarnefndar og jafn marga til vara.

Formaður tilnefningarnefndarinnar er Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og er hún skipuð án tilnefningar. Aðrir í nefndinni eru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, en þau eru bæði tilnefnd af Samstarfsnefnd háskólastigsins, Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningarsviðs ASÍ, tilnefndur af ASÍ og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins.

Tilnefningar um fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráð skal senda á netfangið for@for.is í síðasta lagi 23. apríl nk. Æskilegt er að tillögum fylgi upplýsingar um starfsferil viðkomandi, t.d. hlekk á Linkedin síðu eða annað.

""