Skip to main content
5. júní 2019

Óttar Rolfsson hlýtur framgang í stöðu prófessors í lífefna- og kerfislíffræði

Óttar Rolfsson flutti erindi um störf sín í Læknagarði í síðustu viku en hann hefur hlotið framgang í stöðu prófessors í lífefna- og kerfislíffræði við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. 
Óttar er fæddur þann 27. mars 1978  í Reykjavík. Foreldrar hans eru Rolf Hansson og Herdís Sveinsdóttir. Eiginkona hans er Dr. Sunna Símonardóttir og eiga þau tvær dætur, þær Iðunni 7 ára og Emblu Sól 13 ára.
Óttar lauk BS námi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands 2001 og vann eftir það í tvö ár hjá Íslenskri erfðagreiningu. Eftir störf þar lauk hann mastersgráðu 2005  í lífrænum efnasmíðum undir leiðsögn próf Jóns k.f. Geirssonar. Hann hélt síðan til Englands í nám og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Leeds árið 2009. Doktorsverkefnið var grunnrannsóknarverkefni í veirufræði og fjallaði um RNA veirur og á hvern hátt þær myndast innan hýsils. Eftir doktorsnám starfaði Óttar sem post doc við reiknilíkanagerð af efnaskiptaferlum í mannslíkamanum og notkun þeirra við uppgötvun nýrra efnahvarfa í frumum.
Hann kennir námskeið í lífefnafræði og efnaskipti öllum þeim nemum sem útskrifast sem læknar, lyfjafræðingar, tannlæknar, lífeindafræðingar og næringarfræðingar frá Háskóla Íslands. 
Rannsóknir Óttars hafa einkum beinst að notkun massagreiningar við rannsóknir á frumuefnaskiptum í blóði sem og hvernig efnaskipti breytast í þroskunarferli frumna í brjóstakrabbameini, og hvernig túlka megi þessi gögn á heildstæðan máta með notkun reiknilíkana af efnaskiptaferlum.